Landsliðskonan Agla María Albertsdóttir skrifaði í dag undir nýjan þriggja ára samning í herbúðum Breiðabliks aðeins ári eftir að hafa gengið til liðs við uppeldisfélag sitt á ný.

Agla María sem er nítján ára samdi sextán ára gömul við Val en fór ári síðar í Stjörnuna. Eftir tvö tímabil í herbúðum Garðbæinga sneri hún aftur heim til Blika.

Hún var í lykilhlutverki hjá Breiðablik sem vann tvöfalt á síðasta ári og skoraði níu mörk í 22 leikjum í deild og bikar. Var hún verðlaunuð með því að vera kosin íþróttakona Kópavogs á síðasta ári.

Agla hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 23 leiki fyrir A-landslið Íslands en er ekki í hópnum sem fer til Suður-Kóreu um mánaðarmótin vegna lokaprófa.