Breiðablik vann afar sannfærandi 3-0 sigur þegar liðið fékk króatíska liðið Osijek í heimsókn á Kópavogsvölli í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna í kvöld.

Blikar hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu tvö mörk eftir um það tíu mínútna leik. Hildur Antonsdóttir braut ísinn en Hildir fékk frábæra stungusendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur og kláraði færið að stakri prýði.

Taylor Marie Ziemer tvöfaldaði svo forystu Blika með góðu skoti rétt utan vítateigs. Agla María innsiglgaði svo sigur Breiðabliks í upphafi seinni hálfleiks en hún setti þá boltann í netið eftir sendingu frá Tiffany Janeu McCarty.

Fyrri leik liðanna lyktaði með 1-1 jafntefli og Breiðablik tryggði sér þar af leiðandi farseðilinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með sigrinum í kvöld.

Þar keppa 16 sterkustu félagslið Evrópu í fjórum riðlum en riðlakeppnin verður spiluð frá því í byrjun október fram í miðjan desember. Þar áður mætir Breiðablik Þrótti í bikarúrslitum.

Hér að neðan má sjá liðin sem leika í riðlakepppni Meistaradeildarinnar þetta tímabilið.

Svona verða styrkleikaflokkarnir þegar dregið verður í riðlana.

Styrkleikaflokkur 1

Barcelona, Paris Saint-Germain, Bayern Munchen og Chelsea.

Styrkleikaflokkur 2

Lyon, Wolfsburg, Arsenal og Breiðablik.

Styrkleikaflokkur 3

Häcken, Juventus, Hoffenheim og Real Madrid.

Styrkleikaflokkur 4

Kharkiv, Servette, Köge og Benfica.