Afturelding tyllti sér á topp Olísdeildar karla í handbolta með 31-25 sigri sínum á móti Fjölni í níundu umferð deildarinnar. Afturelding hóf leikinn af miklum krafti og komst i 9-1 og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda.

Birkir Benediktsson átti enn einn góða leikinn fyrir Aftureldingu en hann var markahæsti leikmaður liðsins með átta mörk. Brynjar Óli Kristjánsson og Goði Ingvar Sveinsson skoruðu mest fyrir Fjölni eða sex mörk talsins.

ÍR nálgaðist svo topplið deildarinnar með 32-27 sigri sínum á móti ÍBV. Björgvin Þór Hólmgeirsson lék á als oddi fyrir Breiðhyltinga en hann skoraði 11 mörk í leiknum. Kristján Örn Kristjánsson var hins vegar atkvæðamestur fyrir ÍBV með átta mörk.

Afturelding jafnaði Hauka sem leika við Selfoss í lokaleik umferðarinnar annað kvöld að stigum en toppliðin hafa 14 stig. ÍR er síðan í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig.

KA hafði betur í öðrum leiknum sínum í röð þegar liðið fékk FH í heimsókn. Lokatölur í leiknum 31-27 KA í vil en Dagur Gautason dró vagninn í sóknarleik norðanmanna með níu mörk og Ásbjörn Friðriksson var líkt og oft áður í broddi fylkingar hjá FH með 11 mörk.

Valur vann þægilega 31-22 sigur þegar liðið sótti HK heim. Hornamennirnir Vignir Stefánsson og Finnur Ingi Stefánsson voru fremstir í flokki hjá Val en Vignir skoraði átta mörk og Finnur Ingi sjö.

Jóhann Birgir Ingvarsson sem kom til HK frá FH á dögunum stimplaði sig vel inn í liðið í sínum fyrsta leik en hann var markahæstur með átta mörk.

Selfoss og FH eru jöfn að stigum í fjórða til fimmta sæti deildarinnar með 11 stig og KA, ÍBV og Valur eru þar fyrir neðan öll með níu stig. Fram er í níunda sæti með sjö stig og Stjarnan og Fjölnir í 10. til 11. sæti með fimm stig hvort lið. HK vermir svo botnsætið án stiga.