Knattspyrnudeild Aftureldingar hefur tekið höndum saman með eldri borgunum sem munu fá frítt á leiki félagsins í sumar. Búast má við mikilli stemmningu í Mosfellsbæ en kvennalið félagsins leikur í Bestu deildinni og karlaliðið í Lengjudeildinni.

Í tilefni þess að ákveðið var að eldri borgarar fengju frítt á leiki félagsins fóru leikmenn Aftureldingar í heimsókn í félagsstarfið á Eirhömrum í Mosfellsbæ og hituðu upp fyrir tímabilið.

Kvennalið Aftureldingar átti góðu gengi að fagna í Lengjudeildinni í fyrra. Liðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni með því að enda í 2. sæti á síðastatímabili og tapaði aðeins tveimur leikjum yfir tímabilið. Fréttablaðið spáir því að liðinu muni einnig ganga vel í sumar og halda sæti sínu í deildinni.

,,Ég hef séð þær í vetur og þær líta mjög vel út, þær eiga eftir að fá fleiri leikmenn inn. Þær gerðu mjög vel á íslenska markaðnum líka, metnaðurinn í Mosó er gríðarlegur. Það virðist vera mikið púður sett í þetta, ég er hræddur um það ef þetta byrjar ekki vel að þær gætu farið að hengja haus. Fyrir þær að halda sér uppi er stórsigur, það má ekki gleyma því að það er stutt síðan liðið var í 2. deild. Hafa litið vel út í vetur og það verður fróðlegt að sjá hvernig tekst til í sumar," sagði Eiður Benedikt Eiríksson, sérfræðingur Fréttablaðsins um Bestu deildina.

Karlalið Aftureldingar endaði í 10. sæti Lengjudeildarinnar í fyrra og ef marka má spá fyrirliða og forráðamanna liða í Lengjudeildinni fyrir tímabilið verður hið sama upp á teningnum í ár.