Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, lék sinn annan leik fyrir Arsenal þegar liðið vann sannfærandi 3-0 sigur á móti Molde í fjórðu umferð í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í Noregi í kvöld.

Í frumraun sinni með Arsenal sem var einnig í Evrópudeildinni, þá gegn írska liðinu Dundalk, hélt Rúnar Alex marki sínu sömuleiðis hreinu. Ferill hans hjá Arsenal byrjar því vel en Rúnar Alex gekk til liðs við Skytturnar frá Dijon í haust.

Arsenal tryggði sér með þessum sigri sæti í 32 liða úrslitum keppninnar.

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn og Arnór Sigurðsson rúman klukkutíma þegar CSKA Moskva gerði markalaust jafntefli við hollenska liðið Feyenoord.

Allt er í hnút í þeim riðli en Dinamo Zagreb er á toppnum með átta stig, Feyenoord kemur þar á eftir með fimm stig, Wolfsberger AC hefur fjögur stig og CSKA Moskva rekur lestina með þrjú stig þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni.