Áfrýjunarnefnd Alþjóðahandknattleikssambandsins hafnaði áfrýjun rússneska handboltasambandsins á dögunum og staðfesti með því keppnisbann yfir rússenskum félögum og landsliðum.

Þann 28. febrúar síðastliðinn ákvað Alþjóðahandknattleikssambandið að meina liðum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi þátttöku í keppnum á þeirra vegum eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Með því varð ljóst að Rússum yrði dæmdur ósigur í landsleikjum og að félög yrðu útilokuð frá keppnum eins og Meistaradeild Evrópu.

Líkt og önnur sérsambönd innan Rússlands áfrýjaði handboltasamband Rússa þessum úrskurði en þeirri áfrýjun var hafnað.