Þetta ritar Sævar í færslu sem birtist á samfélagsmiðlinum Twitter. Sævar hefur eytt tíma í Danmörku að undanförnu og komst að þessari niðurstöðu. ,,Eftir nokkra daga í Dannmörku sér maður hvað íþróttaafrekstarf á Íslandi er langt á eftir. Þetta á við um svo margt í umhverfinu hjá okkur. Mannvirkin, samstarf við skóla, viðurkenning á starfi og fleira."

Hann segir okkur á frábærum stað með áhugaíþróttir en að afreksstarf sé ekki samkeppnishæft. ,,Hér eru menn stoltir af afreksstarfinu, vilja gera umgjörðina meiri og viðurkenna íþróttir sem atvinnugrein.

Sævar vill sjá meira gert til þess að efla afreksstarfið hér á landi og um leið efla þá atvinnugrein sem íþróttir séu. ,,Íþróttir á Íslandi velta milljörðum og eru mikil tækifæri til þess að efla afreksstarfið og gera íþróttir að stærri atvinnugrein."

Af skrifum hans að dæma má hins vegar fá þá tilfinningu að ekkert sé á teikniborðinu sem bendi til þess. ,,Enginn virðist vilja tala því máli heima," skrifar Sævar Pétursson, framkvæmdarstjóri KA í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter.

Íslendinga skortir stefnu í þessum málum

Skrif Sævars virðast vera í takt við tilfinningu Björgvins Páls Gústavssonar, markvarðar handboltaliðsins Vals sem sagði við Fréttablaðið á dögunum að það skorti stefnu fyrir íþróttalífið á Íslandi.

,,Hver er stefna okkar Íslendinga í þessum málum almennt? Það er þessi hræðsla sem berst innra með mér núna því maður sér ekki alveg leiðina út úr þessu miðað við hvað það er lítið að gerast á öllum vígstöðvum. Það er alltaf verið að tala um hlutina en lítið gerist, hvort sem það er tengt aðstöðuleysi eða uppbyggingu á íþróttafólkinu okkar," sagði Björgvin Páll Gústavsson í samtali við Fréttablaðið á dögunum