„Ég held að þetta sé stærsta afrek íþróttasögu Íslands enn þann dag í dag,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólastjóri og frjálsíþrótta-alfræðiorðabók, um afrek Vilhjálms Einarssonar sem stökk á þessum degi 16,26 metra í þrístökki á Ólympíuleikunum í Ástralíu.

Stökkið var Ólympíumet og stóð í rúmar tvær klukkustundir þangað til ríkjandi Ólympíumeistari, Brasilíumaðurinn Adhemar da Silva, stökk níu sentimetrum lengra og vann. Vitold Kreyer varð í þriðja sæti og Bandaríkjamaðurinn Bill Sharpe varð í fjórða sæti, en hann leiddi eftir fyrstu umferð með stökki upp á 15,88 metra.

Þetta voru fyrstu Ólympíuverðlaun Íslendings og er Vilhjálmur enn eini Íslendingurinn sem hefur sett Ólympíumet. Biðu Íslendingar í 28 ár eftir næstu verðlaunum á Ólympíuleikunum.

„Að setja Ólympíumet er ekkert gert á hverjum degi og Vilhjálmur nær að vera í forystu, gjörsamlega óþekktur, í einhverja klukkutíma fyrir fjórða stökk da Silva.

Ólympíuleikar eru stærsta íþróttakeppni heims og við getum sagt að silfrið hjá handboltalandsliðinu sé mjög gott, en handbolti er örgrein miðað við frjálsar íþróttir á Ólympíuleikum. Þess vegna tel ég að þetta sé enn þá stærsta íþróttaafrek sem Íslendingur hefur unnið,“ segir Sigurbjörn.

Hann bendir á að Vilhjálmur hafi aðeins stokkið fjórum sinnum á meðan da Silva stökk sex sinnum.

„Hann þoldi ekki mikið af stökkum í einu. Skórnir voru auðvitað miklu verri og í raun bölvað rusl. Hann reyndi að fá meiri dempun og mýkt en tók ekki öll stökkin sín.“

Þegar kom að því að útnefna í fyrsta skipti afreksíþróttamann í heiðurshöll ÍSÍ á afmælishátíð sambandsins, var Vilhjálmur sá fyrsti sem var tekinn þar inn.

Sigurbjörn bendir á að stökk upp á 16,70, sem er Íslandsmet Vilhjálms frá 1960, sé frambærilegt enn þann dag í dag og að hann kæmist á flest stórmót.

„Aðstaðan var frábær í gamla daga. Melavöllurinn var sambærilegur við aðra velli úti í heimi. Auðvitað var hér skítaveður, en hér var toppaðstaða. Svo liðu árin og aðrir tóku fram úr okkur.Það var líka bannað að vera atvinnumaður á Ólympíuleikum, sem taldi líka. Þá var unnið og farið svo á æfingu. En samt er ótrúlegt að ná Ólympíumeti,“ segir Sigurbjörn.

Einn sá besti

Vilhjálmur Einarsson var einn af fremstu þrístökkvurum heims árin 1956-1962. Meðal afreka Vilhjálms var 3. sæti á Evrópumeistaramóti árið 1958, 5. sæti á Ólympíuleikunum í Róm á Ítalíu árið 1960, með stökki upp á 16,37 metra, og 6. sæti á Evrópumeistaramóti í Belgrad árið 1962, þar sem hann lauk ferlinum.

„Ferill hans var frábær. Íslendingum var boðið að koma og keppa úti um allan heim, svo framarlega sem silfurmaðurinn væri með,“ segir Sigurbjörn Árni.