Á vef­síðu Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandsins er farið yfir öll þau 16 lið sem mæta til leiks á Evrópu­mótið í knatt­spyrnu sem hefst á Eng­landi á morgun og gefnar upp á­stæður við hvert og eitt lið til þess auð­velda á­huga­fólki um knatt­spyrnu að velja sitt lið á mótinu.

Ís­land er á meðal þátt­töku­þjóða á mótinu, Stelpurnar okkar eru í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakk­landi. Miklar væntingar eru rétti­lega gerðar til liðsins fyrir mótið en ís­lenska kvenna­lands­liðið hefur verið á fljúgandi siglingu undir stjórn Þor­steins Hall­dórs­sonar og kemur fullt sjálfs­trausts inn í mótið.

,,Karla­lands­lið landsins heillaði heiminn á EM 2016 en ís­lenska kvenna­lands­liðið er þaul­reynt á stór­mótum. Þetta er fjórða loka­mót fé­lagsins, Sif Atla­dóttir og Sara Björk Gunnars­dóttir hafa verið í liðinu á öllum fjórum loka­mótunum," segir í um­sögn UEFA um ís­lenska kvenna­lands­liðið.

Fyrsti leikur Ís­lands á mótinu er gegn Belgíu á sunnu­daginn næst­komandi. Leikurinn fer fram á Manchester City A­cademy vellinum og flautað verður til leiks klukkan 16:00 á ís­lenskum tíma.

Annar leikur liðsins er gegn Ítalíu Fimmtu­daginn 14. júlí. Sá leikur fer einnig fram á Manchester City A­cademy vellinum og hefst klukkan 16:00 á ís­lenskum tíma.

Loka­leikur Ís­lands í riðla­keppninni er gegn Frakk­landi mánu­daginn 18. júlí. Leikurinn fer fram á New York leik­vanginum í Rot­her­ham og hefst klukkan 19:00 á ís­lenskum tíma.