Þorsteinn Hreiðar Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, segir að áfengi hafi hvorki verið veitt né haft um hönd í verkefnum íslenska liðsins síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu í upphafi þessa árs.

Þorsteinn var spurður um málið á blaðamannafundi vegna vináttulandsleik íslenska liðsins gegn Japan sem fram fer í Hollandi á morgun.

„Við höfum ekkert þurft að taka umræðu um að banna áfengi í ferðum okkar eða í kringum leiki hjá okkur þar sem það hefur ekki verið veitt eða haft um hönd á meðan ég hef verið í starfi," segir Þorsteinn.

„Það verður hins vegar klárlega skálað í kampavíni ef við verðum Evrópumeistarar næsta sumar," segir þjálfarinn léttur í bragði.

Forveri Þorsteins í starfi, Jóni Þór Haukssyni, var sagt upp störfum eftir að hafa gengið of langt í fögnuði leikmanna og starfsmanna íslenska liðsins eftir að liðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM 2021 í Búdapest undir lok síðasta árs.

Þá lét Eiður Smári Guðjohnsen af störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins en talið er að það sé vegna gleðskaps í Skopje eftir leik Íslands við Norður-Makedóníu í lokaumferð í undankeppni HM 2022.