Patrekur Jóhannesson þjálfari Austurríkis er að öllum líkindum afar ósáttur við frammistöðu leikmanna sinna í seinni hálfleik í leik liðsins gegn Síle í C-riðli á heimsmeistaramótinu í handbolta karla í dag. 

Eftir góðan endasprett í fyrri hálfleiknum var staðan 15-14 Austurríki í vil og flestir bjuggust við því að Austurríkismenn myndu fylgja því eftir og fara með sigur af hólmi. 

Það fór hins vegar allt í baklás hjá leikmönnum Austurríkis í seinni hálfleik og Felipe Barrientos lokaði marki Síle á löngum köflum með góðri markvörslu sinni. 

Erwin Feuchtmann var markahæstur í liði Sílemanna með níu mörk, en Robert Weber var ljósið í myrkvinu í leik Austurríkismanna og var atkvæðamestur með sex mörk. 

Annarri umferðinni lýkur með leikjum Noregs og Sádi-Arabíu annars vegar og Danmerkur og Túnis síðar í dag. Leikur Norðmanna og Sáda hefst klukkan 16.30 og Danir mæta Túnismönnum klukkan 19.15. 

Fyrir þá leiki eru Danmörk, Noregur, Austurríki og Síle með tvö stig hvert lið, en Sádi-Arabía og Túnis aftur á móti án stiga.