Enska Championship-deildin fer af stað á föstudaginn en Íslendingar munu geta fylgst með deildinni á streymisveitu Viaplay. Hjörvar Hafliðason, íþróttastjóri Viaplay Sport á Íslandi, telur deildina á meðal þeirra vinsælustu hjá Íslendingum en Ísland á fulltrúa í deildinni. Búast má við hörku tímabili í þessari kröfuhörðu deild.

„Við ætlum að blása til sóknar í umfjöllun um Championship-deildina. Fyrst og síðast er ánægjulegt að fá deildina sem og deildarbikarinn á Viaplay. Við erum náttúrlega með Íslending í Championship-deildinni en ekki ensku úrvalsdeildinni,“ segir Hjörvar Hafliðason í samtali við Fréttablaðið.

Hjörvar Hafliðason, íþróttastjóri Viaplay Sport á Íslandi

Jóhann Berg Guðmundsson er leikmaður Burnley sem féll úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og áhugavert að sjá hvernig hann plumar sig í deildinni á ný eftir nokkurra ára fjarveru frá henni.

„Ég myndi halda að Champion­ship-deildin væri á meðal vinsælustu deilda knattspyrnunnar á meðal Íslendinga, fólk hefur áhuga á þessu og við erum þarna með fornfræg ensk knattspyrnufélög sem berjast um sæti í deild þeirra bestu. Við verðum með fjóra til fimm leiki í beinni útsendingu í hverri umferð og munum svo sýna alla leiki útsláttarkeppninnar næsta vor, bæði í League One, League Two sem og Championship-deildinni.“

Úrslitaleikurinn í útsláttarkeppni Championship deildarinnar er á meðal verðmætustu knattspyrnuleikja heims. Auk þess að næla sér í sæti í ensku úrvalsdeildinni mun sigurvegari þess leiks tryggja sér fúlgu fjár. Talið er að Nottingham Forest hafi fengið yfir eitt hundrað og sjötíu milljónir punda í sinn hlut fyrir að hafa borið sigur úr býtum gegn Huddersfield Town í úrslitaleiknum í maí síðastliðnum.

„Þá gæti líka verið að við munum sýna meira frá League One og League Two á meðan HM í knattspyrnu stendur yfir í nóvember. Þá er gert hlé á Championship-deildinni, líkt og er gert í öðrum helstu deildum Evrópu. Þannig fyrir þá sem eru að farast af fráhvörfum frá enskum fótbolta munu þeir allavega hafa þessar deildir og við sýnum frá þeim.Margir af þessum bestu leikmönnum hafa tekið skref fram á við í ensku Championship-deildinni. Harkan í deildinni er mikil, hún krefst mikils af leikmönnum enda eru leiknar fjörutíu og sex umferðir. Það er áhugavert tímabil í vændum,“ segir Hjörvar Hafliðason, íþróttastjóri Viaplay Sport á Íslandi, í samtali við Fréttablaðið