Leikmannasamtök Íslands létu gera könnun meðal leikmanna sem koma til með að spila í Pepsi-deildinni í sumar um lengingu á Íslandsmótinu. Könnunin var fremur einföld, leikmenn voru spurðir hvort þeir væru hlynntir lengingu Íslandsmótsins eða ekki, ef til lengingar kæmi hvaða leið þeim þætti heppilegust þar sem fjórir valmöguleikar voru viðraðir, hvort þeim þætti mikilvægt að gert yrðir sumarhlé ef til þess kæmi að mótið yrði lengt og að lokum hvort þeim þætti mikilvægt að samningar yrðu endurskoðaðir.

Mikill meirihluti, eða 86 prósent, sem tók þátt í könnuninni sögðust vera hlynnt því að Íslandsmótið yrði lengt. Aðeins um sex prósent sögðust ekki vilja það á meðan rúmlega átta prósent höfðu ekki skoðun á því, sem vekur furðu enda hefur lenging á mótinu verið í umræðunni töluvert lengi.

Opnunarleikurinn í fyrra var milli Vals og Víkings sem fram fór 26. apríl. Í ár á að byrja fjórum dögum fyrr. Leikmenn vilja, ef til þess kemur að mótið verði lengt, að það verði gert hlé á deildinni yfir sumarið. Fréttablaðið/Ernir

Skagamenn ætla að leggja fram tillögu á ársþingi KSÍ í febrúar um fjölgun liða í efstu deild í 14 á næsta ári og 16 árið 2022 og að áfram verði spilaðar tvær umferðir. Skagamenn segja að margir hafi sýnt tillögunni áhuga og fagni því að þeir skuli ríða á vaðið.

Þó hafa heyrst efasemdaraddir um að tillagan sé lögð fram í alltof miklu flýti. Á síðasta stjórnarfundi KSÍ var rætt um starfshóp um fjölgun leikja. „Ljóst er að þetta er umfangsmikið mál sem kallar á góða undirbúningsvinnu. Taka þarf sérstaklega til skoðunar aukinn kostnað vegna mögulegrar fjölgunar,“ segir í fundargerð stjórnar KSÍ.

Leikmenn eru fáir á bandi Skagamanna. Aðeins 12 prósent vilja þeirra leið en það sem leikmenn vilja er þreföld umferð, með 12 liðum. Tæplega helmingur þeirra sem svöruðu, eða 47 prósent, var á því að deildin ætti að vera þannig. Um 24 prósent vildu hafa 14 liða deild með tvöfaldri umferð, rúmlega 17 prósent vilja fækka liðunum aftur niður í 10 lið en spila þrefalda umferð.

Óskar Örn Hauksson og félagar í KR settust niður og svöruðu spurningum Leikmannasamtaka Íslands eins og 169 aðrir leikmenn. Fréttablaðið/Ernir

FH-ingar voru með langlélegasta svarhlutfallið af liðunum sem tóku þátt en aðeins átta leikmenn FH tóku þátt í könnuninni en öll önnur lið í Pepsi-deildinni voru með tíu eða fleiri þátttakendur. Grótta og Breiðablik voru með flesta þátttakendur eða 19 talsins.

Laun leikmanna að sliga félögin

Tæplega 72 prósent leikmanna sögðu að það væri mikilvægt eða mjög mikilvægt að samningar yrðu endurskoðaðir ef mótið yrði lengt. Í nýlegri skýrslu um fjárhagsstöðu félaganna kom í ljós að íslensk félög eru að borga um 80 prósent af heildartekjum í laun til leikmanna. Þess ber að geta að UEFA hvetur lið til þess að hafa launakostnað ekki hærri en 55 prósent af veltu sinni, segir í skýrslunni og bent á að fari hlutfallið yfir þá tölu standi félögin ávallt frammi fyrir verulegum rekstrarvanda. Ekki er tekið fram hvað það er sem leikmenn ætla að endurskoða í sínum samningum. Í tilkynningu frá Leikmannasamtökunum segir að núverandi samningar hafi verið gerðir með ákveðið mikla vinnu í huga og forsendurnar séu orðnar allt aðrar ef leikjunum fjölgar úr 22 í 33 eins og ein leiðin gerir ráð fyrir.