Valur er í erfiðri stöðu í einvígi sínu við slóvenska liðið Maribor í fyrstu umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir 3-0 tap liðsins í fyrri leik liðanna á Origo-vellinum að Hlíðaranda í kvöld.

Ólafur Karl Finsen fékk tvö fín færi til þess að koma Val yfir í upphafi leiksins en honum tókst ekki að koma skoti á markið í báðum tilvikunum. Ólafur Karl lagði svo upp afbragðs færi fyrir Patrick Pedersen sem náði ekki að hitta mark Maribor.

Spiro Pericic miðvörður Maribor kom svo liðinu yfir skömmu fyrir lok fyrri hálfleik með laglegu skallamarki.

Ólafur Karl var svo aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks en Kenan Piric markvörður Maribor varði þá skalla en missti boltann frá sér og náði að hrifsa hann til sín af marklínunni.

Dino Hotic tvöfaldaði svo forystu slóvenska liðsins skömmu síðar með föstu og hnitmiðuðu skoti rétt innan vítateigs Vals. Rok Kronaveter bætti svo þriðja marki Maribor við undir lok leiksins með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Bjarna Ólaf Eiríksson.

Liðin mætast í senni leiknum ytra eftir slétta viku en ljóst að það verður við ramman reip að draga hjá Valsmönnum að snúa viðuregninni sér í vil í þeim leik.