Charles Leclerc, einn af ökumönnum Ferrari í Formúlu 1 hefur verið dæmdur til að sæta tíu sæta refsingu fyrir komandi kappakstur mótaraðarinnar í Sádi-Arabíu á sunnudaginn.
Frá þessu er greint í yfirlýsingu Formúlu 1 þar sem segir að Ferrari hafi þurft að skipta um hlut í rafkerfi bíl Leclerc sem hafði þurft að hætta keppni í miðjum kappakstri í Barein fyrir hálfum mánuði síðan.
Skipta þurfti tvisvar sinnum um umræddan hlut í bíl Leclerc vegna keppnisdagsins í Barein, einu sinni fyrir keppni og einu sinni eftir keppni.
Þar sem liðum er aðeins heimilt að skipta tvisvar sinnum um umræddan hlut í bíl sínum án þess að hljóta refsingu og um sé að ræða þriðja skiptið sem skipt er um slíkan hlut í bíl Leclerc er ljóst að hann mun falla aftur um 10 sæti á ráslínu á sunnudaginn eftir að niðurstaða tímatöku á laugardaginn liggur fyrir.
Ljóst er að Leclerc má ekki við fleiri svona atvikum þrátt fyrir að fram undan sé aðeins önnur keppnishelgi tímabilsins. Ætli hann sér í baráttu um heimsmeistaratitilinn við ríkjandi heimsmeistara, Max Verstappen, ökumann Red Bull Racing, verður hann að hámarka stigasöfnun sína.