Charles Leclerc, einn af öku­mönnum Ferrari í For­múlu 1 hefur verið dæmdur til að sæta tíu sæta refsingu fyrir komandi kapp­akstur mótaraðarinnar í Sádi-Arabíu á sunnu­daginn.

Frá þessu er greint í yfir­lýsingu For­múlu 1 þar sem segir að Ferrari hafi þurft að skipta um hlut í raf­kerfi bíl Leclerc sem hafði þurft að hætta keppni í miðjum kapp­akstri í Bar­ein fyrir hálfum mánuði síðan.

Skipta þurfti tvisvar sinnum um um­ræddan hlut í bíl Leclerc vegna keppnis­dagsins í Bar­ein, einu sinni fyrir keppni og einu sinni eftir keppni.

Þar sem liðum er að­eins heimilt að skipta tvisvar sinnum um um­ræddan hlut í bíl sínum án þess að hljóta refsingu og um sé að ræða þriðja skiptið sem skipt er um slíkan hlut í bíl Leclerc er ljóst að hann mun falla aftur um 10 sæti á rás­línu á sunnu­daginn eftir að niður­staða tíma­töku á laugar­daginn liggur fyrir.

Ljóst er að Leclerc má ekki við fleiri svona at­vikum þrátt fyrir að fram undan sé að­eins önnur keppnis­helgi tíma­bilsins. Ætli hann sér í bar­áttu um heims­meistara­titilinn við ríkjandi heims­meistara, Max Ver­stappen, öku­mann Red Bull Ra­cing, verður hann að há­marka stiga­söfnun sína.