Bill Belichick, þjálfari NFL-liðsins New England Patriots, mun ekki veita Frelsisorðu fráfarandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, viðtöku. Belichick vill þannig mótmæla framgöngu Trumps í kringum árásina á bandaríska þinghúsið í Washington í síðustu viku.

Þjálfarinn margreyndi segir að hann hafi fyllst stolti þegar hann frétti fyrst af orðuveitingunni. Belichick hefur áður rætt opinberlega um hlýjan hug sinn til Trumps.

Atburðir síðustu daga hafi hins vegar orðið til þess að honum hafi snúist hugur. Mótmælin við þinghúsið drógu fimm til dauða, en þar voru stuðningsmenn Trumps að mótmæla framkvæmd forsetakosninganna þar í landi sem fram fóru í nóvember síðastliðnum.

Belichick hefur borið sigur úr býtum í Super Bowl sex sinnum sem þjálfari New England Patriots í NFL-deildinni í amerískum ruðningi. Hann er sigursælasti þjálfarinn í sögu NFL og búinn að stýra sama liði frá aldamótunum.

Trump veitti bandaríska kylfingnum Tiger Woods Frelsisorðuna fyrr á forsetatíð sinni sem senn fer að ljúka.