Snemma árs 2021 lá Eva Rún Dagsdóttir á gjörgæslu eftir að hafa greinst með blóðtappa og mátti ekki gera það sem hún gerir best, að spila körfubolta.

„Ég var bara á miðju tímabili með meistaraflokki Tindastóls þegar ég fór að finna fyrir miklu þrekleysi bæði á æfingum og í leikjunum sem ég tók þátt í. Svo þróaðist þetta út í verki sem ég fékk ítrekað í hægri nárann og eftir því sem á leið fóru verkirnir að aukast og dreifast um líkamann.“

Þetta var náttúrulega bara risastórt sjokk. Það hvarflaði aldrei að okkur að þetta væri svona alvarlegt

Eva segir verkina hafa versnað með tímanum. „Á endanum varð þetta svo slæmt að ég var bara rúmliggjandi í marga daga með stanslausa verki. Þetta var í kringum páskahátíðina og ég fékk tíma hjá lækni eftir páska.“

Páskahátíðin leið og að sögn Evu Rúnar voru engir páskar hjá henni það árið. „Ég mætti í tímann eftir páska og það liðu ekki einu sinni fimm mínútur áður en læknirinn sá til þess að ég yrði flutt með flýti á bráðamóttökuna á Sjúkrahúsinu á Akureyri.“

Hún segir að viðbrögð læknisins hafi slegið sig. „Þetta var náttúrulega bara risastórt sjokk. Það hvarflaði aldrei að okkur að þetta væri svona alvarlegt af því að ég var náttúrulega bara á fullu í íþróttum, ég áttaði mig ekki á alvarleika málsins og maður fattar það ekki fyrr en maður fær fréttirnar.“

Send suður með sjúkraflugi

Hlutirnir þróuðust hratt fyrir Evu Rún sem hafði vanist því að geta stigið inn á körfuboltavöllinn til þess að gera það sem hún elskar og leika listir sínar. Morguninn eftir að hún var send á Akureyri var tekin ákvörðun um að senda hana með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

„Þann sama dag beið ég eftir aðgerð því fundist höfðu svo rosalega margir blóðtappar í rannsóknum á mér. Ég var send í aðgerð og síðan var dælt í mig blóðþynnandi lyfjum beint í æð á gjörgæslu.“

Eva segir það hafa verið mjög erfitt fyrir sig að sætta sig við að geta ekki spilað körfubolta eins og hún var vön að gera fyrir þessa atburðarás. „Ég var ótrúlega hrædd um að geta kannski ekki spilað körfubolta aftur. Ég hafði fengið þau skilaboð að ég mætti ekki byrja að æfa aftur fyrr en eftir að minnsta kosti sex mánuði. Það tók mikinn toll af mér að þurfa að vera svona lengi frá körfuboltanum.“

Tíminn leið og aðeins fimm mánuðum eftir að Eva Rún hafði legið á gjörgæslu spilaði hún sinn fyrsta leik eftir veikindin en hún hafði fengið grænt ljós frá læknateyminu um að hefja aftur æfingar skömmu áður.

„Það var æðisleg tilfinning. Ég hoppaði beint inn í íþróttahús og fór á fullt að æfa. Þetta var alveg stórt verkefni, að koma ferlinum aftur af stað en þetta hefur gengið vonum framar. Ég setti mér það markmið að leggja mig alla fram í því að koma sterk til baka og það gekk eftir.“

Smæð samfélagsins hjálpaði

Það er ekki síður stórt verkefni fyrir íþróttakonu eins og Evu Rún að þjálfa og passa upp á andlegu hliðina þegar áfall eins og hún gekk í gegnum gerist. Því það er áfall fyrir íþróttafólk að mega allt í einu ekki stunda það sem það gerir best og hefur ástríðu fyrir.

„Það var krefjandi verkefni að ná andlegu hliðinni góðri aftur og margt sem spilaði þar inn í en ég var svo heppin að hafa góðan stuðning á bak við mig frá fjölskyldu og vinum.“

Eva Rún segir einnig að samfélagið á Sauðárkróki og í Skagafirði eigi stóran þátt í endurkomu hennar. Hún telur að smæð samfélagsins hafi spilað þar mikilvægan þátt. „Það var bara tekið utan um mig og það hjálpaði mér mjög mikið. Bæði á meðan ég lá inni á sjúkrahúsi og líka þegar ég kom heim aftur.“

Saga Evu Rúnar ætti að veita öðrum í svipaðri stöðu innblástur. Hún hefur komið til baka eftir erfiða tíma og frammistaða hennar með Tindastól í 1. deildinni hefur vakið verðskuldaða athygli.

„Ég var valin í æfingahóp undir 20 ára landsliðsins og fer í verkefni með liðinu núna í lok maí. Það hefur alltaf verið markmiðið hjá mér að komast í landsliðið og ég var náttúrulega mjög ánægð með að fá kallið í þetta verkefni. Núna mun ég bara leggja enn þá harðar að mér til að verða betri.“