„Stemningin er mjög góð, það er komin mikil spenna og mönnum hlakkar til að koma til Moskvu. Mér líður mjög vel og fer bara bjartsýnn inn í þann leik,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við fréttamenn á æfingarsvæði landsliðsins í Kabardinka í dag.

Honum finnst æfingarnar hafa gengið vel fyrstu vikuna í Rússlandi.

„Við höfum verið að koma okkur í gang og venjast hitanum hér í Rússlandi. Við höfum mest verið að einblína á fyrsta leikinn, auðvitað skoðum við líka Nígeríu og Króatíu en mestur tími fer í að skoða Argentínu. Við höfum verið skoða styrkleika þeirra og veikleika,“ sagði Arnór og hélt áfram:

„Eins og allir vita þá eru eru þeir með gríðarlega gott lið en það eru veikleikar þarna sem við ætlum okkur að nýta okkur. Við þurfum alltaf að vera á tánnum.“

Hann segist undirbúa sig fyrir leikinn eins og að hann væri að fara að byrja.

„Ég fer alltaf inn í leiki eins og ég sé að fara að byrja, maður verður að vera með það sjónarmið að maður komi við sögu til að verða tilbúinn. Ef maður fær þessar mínútur þá mun ég reyna að nýta þær til hins ítrasta og láta til mín taka.“

Leikmenn skelltu sér í hjólareiðatúra í gær um bæinn.

„Ég fór líka í smá hjólaferð og skoðaði mig aðeins um, breytti um umhverfi og skellti mér í kaffibolla á ströndinni. Þetta er lítill bær en mjög notalegur. Við vöktum auðvitað smá athygli en ekkert gríðarlega.“

Hann segist ekki hafa áhyggjur af fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni.

„Frá því að hann meiddist hef ég engar áhyggjur haft af honum, ég vissi að hann myndi vera snöggur að koma til baka og myndi ná þessu.“ 

Arnór Ingvi Traustason er vopnaður myndarlegu húðflúri en hann er með fjölskyldu sína flúraða á vinstri höndinni.

„Ég er með foreldra mína efst á hendinni, systkyni mín að aftan og svo er ég með tákn fyrir ömmu mína og afa þar rétt hjá,“ sagði Arnór og bætti við:

„Ég er alltaf með fjölskylduna mína með mér, þau eru það mikilvægasta. Svo eru hin húðflúrin eitthvað sem ég valdi.“