Bandaríski atvinnukylfingurinn Dustin Johnson ætlar sér að breyta liðsskipan hjá liði sínu 4 Aces GC sem varð á dögunum fyrsta liðið til þess að tryggja sér meistaratitilinn í liðakeppni LIV-mótaraðarinnar í golfi.

Þetta herma heimildir ESPN en Dustin hefur verið afar sigursæll eftir að hann tók skrefið frá PGA mótaröðinni yfir til LIV fyrir fyrsta tímabil mótaraðarinnar sem er keyrð áfram á fjármagni frá Sádi-Arabíu.

Johnson hefur nú þegar tryggt sér yfir 35 milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé á fyrsta tímabili sínu á LIV-mótaröðinni, það jafngildir rúmum 5 milljörðum íslenskra króna.

Þær breytingar sem Dustin, sem er fyrirliði 4 Aces GC, ætlar sér að gera er meðal annars að skipta út Talor Gooch fyrir Peter Uihlein. Gooch er á leið í lið Niblicks GC en Bubba Watson er fyrirliði liðsins.

Margir af þekktustu kylfingum heims hafa tekið í fyrsta tíma­bili LIV-mótaraðarinnar sem er keyrð á­fram á fjár­magni frá Sádi-Arabíu. Móta­röðin fór af stað í júní fyrr á þessu ári.

Það að fjár­­­magnið í móta­röðinni komi frá Sádi-Arabíu hefur vakið upp mikla gagn­rýni á LIV-móta­röðina þar sem kylfingar hennar eru sagðir lítið annað en vel launaðir mála­liðar í hvít­þvotti í í­­­þróttum þar sem sádi-arabíska ríkið sé að reyna snúa um­­­ræðunni frá slæmu orð­­­spori sínu hvað mann­réttindi varðar.