„Ég er vita­skuld mjög á­nægð með að hafa slegið þetta met. Ég er búin að vera að stefna á að bæta þetta met í tvö ár. Ég bjóst ekki við því að ná því á þessu móti en ég sá alveg fyrir mér að bæta metið ein­hvern tímann í vetur. Þetta kom mér á ó­vart enda var þetta að­eins annað mót vetrarins. Til­finningin var rosa­lega góð þegar ég sá að ég hafði bætt Ís­lands­metið. Ég ætlaði ekki að trúa þessu alveg í byrjun en svo með­tók ég þetta og þetta var ansi sætt þar sem ég hef unnið mjög hart að þessu mark­miði mínu í nokkuð langan tíma. Það var líka gaman að bæta svona gamalt met og það með nokkuð af­gerandi hætti,“ segir Irma.

Sig­ríður Anna á Ís­lands­metið í þrí­stökki utan­húss sem er 13,18 metrar. Spurð hvort hún hafi ekki sett stefnuna á að slá það met líka segir Irma: „Jú, að sjálf­sögðu er það stefnan og eftir þetta stökk um helgina er ég ekkert langt frá því.“

Irma segir að Ís­lands­metið gefi henni byr í seglin. „Þetta lítur bara vel út og ég er mjög spennt fyrir komandi mótum,“ segir lands­liðs­konan.

Þrí­stökkið er aðal­grein Irmu en hún leggur einnig stund á lang­stökk. „Ég tek stundum þátt í sprett­hlaupi mér til skemmtunar en aðal­á­herslan hjá mér er þrí­stökkið og lang­stökkið,“ segir Irma, sem ekki alls fyrir löngu náði sínum besta árangri í lang­stökki þegar hún stökk 6,14 metra.

Draumurinn er Ólympíu­leikar

Spurð hvað hún stefni á í fram­tíðinni varðandi í­þróttirnar segir hún: „Það væri auð­vitað al­gjör draumur að komast á Ólympíu­leikana og á þessi stærri mót eins og Evrópu­mótið. Það er svo­lítið lang­sótt en kannski verður það að veru­leika í fram­tíðinni,“ segir Irma.

Hvað er fram undan hjá þér?

„Ég tek þátt í móti í Ár­ósum í Dan­mörku í lok janúar og svo stefni ég á að taka þátt í Norður­landa­móti full­orðinna innan­húss. Svo er fullt af öðrum mótum í sumar sem ég tek þátt í, bæði hér heima og er­lendis. Það er til dæmis Norður­landa­mótið utan­húss, Evrópu­bikar­keppnin, Meistara­mót Ís­lands og bikar­keppnin,“ segir hún.

Irma hefur lagt stund á frjálsar í­þróttir mörg undan­farin ár. „Ég er búin að æfa frjálsar í­þróttir frá því ég var ellefu ára gömul. Ég byrjaði í öllum greinum en fyrir um það bil þremur árum setti ég al­farið fókusinn á þrí­stökk og lang­stökk,“ segir Irma, sem gekk í raðir FH frá Breiða­bliki fyrir einu ári síðan. Hún keppti í sjö­þraut og náði meðal annars að verða Norður­landa­meistari U23 ára árið 2018.

Irma er á þriðja ári í í­þrótta­fræði við Há­skólann í Reykja­vík og auk þess að keppa fyrir FH og lands­liðið þjálfar hún yngri krakka í frjálsum í­þróttum hjá FH.

„Mér finnst virki­lega gaman að þjálfa krakkana og ég fæ mikið út úr því. Svo finnst mér ég læra heil­mikið sjálf af því að leið­beina krökkunum,“ segir Irma.

Nú eru jólin á næsta leiti. Hvernig hagar í­þrótta­konan sér á þessum tíma?

„Ég reyni að halda góðri rútínu en maður verður nú samt að leyfa sér eitt­hvað um jólin. Æfingarnar stoppa ekkert þótt það séu að koma jól. Við tökum til að mynda æfingu á að­fanga­dags­morgun en ég tek því svo ró­lega á jóla­dag og annan í jólum og reyni eftir fremsta megni að njóta. Eftir það fer svo allt á fullt. Það má ekkert slaka á ef maður ætlar sér að ná lengra,“ segir Irma.