Vorið 2017 sóttu félagarnir Björn Berg Gunnarsson og Páll Kristjánsson heim 20 knattspyrnuleikvanga Í Bretlandi, þar af 11 skoska. Nú hyggja þeir á annað ferðalag í mars og að þessu sinni er markmiðið einfalt; að hafa heimsótt alla 42 knattspyrnuleikvanga skoskrar deildarknattspyrnu og nokkra til viðbótar í kaupbæti.

„Við erum æskuvinir úr Vesturbænum og höfum um langt árabil deilt heilmiklum áhuga á skoskum fótbolta og leikvöngum sömuleiðis. Þarna náum við að sameina þessi tvö áhugamál“ segir Björn sem viðurkennir að sennilega deili nú fáir þessum áhugamálum þeirra félaga.

Páll segir ferðina auk þess tækifæri til að kynnast sögu knattspyrnunnar í Skotlandi, en við undirbúning hennar hafa þeir Björn lesið sér vandlega til um leikvangana 42, sögu þeirra og liðanna sem þar leika. Að því tilefni halda þeir úti hlaðvarpsþættinum Klárum Skotland þar sem öllum viðkomustöðunum eru gerð skil.

Leikmenn Celtic fagna meistaratitlinum 2017 á Tynecastle
Tynecastle hjá Hearts í Edinborg.

„Áhugafólk um litla skrítna velli verður ekki svikið“ segir Páll og hlær. En hvaðan kemur þessi áhugi á skoskum leikvöngum og hvers vegna líta þeir ekki heldur á stærstu og frægustu velli Evrópu? „Fyrir því eru fyrst og fremst tvær ástæður“ segir Björn.

„Annars vegar hafa þessir litlu, gömlu og eilítið sjúskuðu skosku vellir að okkar mati mun meiri sjarma og tengingu við gamla og góða tíma. Við alla hliðarlínu Glebe Park í Brechin er til að mynda sögufrægt limgerði og aðalstúka Stark´s Park í Kirkcaldy er bara hálf þar sem vegur liggur nær inn á völlinn.

Hins vegar hafa viðtökurnar verið svo höfðinglegar í Skotlandi að það er ekki annað hægt en að snúa aftur.“ ,,Auðvitað finnst Skotunum mörgum hverjum við alveg stórfurðulegir og við göngumst alveg við því“ bætir Páll við. „Hins vegar finnst okkur bara svo miklu skemmtilegra að heimsækja þessi lið.

Í dómaraklefanum á Tannadice, heimavelli Dundee United

Nánast með einum tölvupósti er maður kominn inn á gafl hjá félögunum, takandi í spaðann á formanni félagsins og þjálfara". Eðlilega sjá þeir félagar ekki leik á hverjum einasta velli en stendur til að fara á einhverja leiki í leiðinni? ,,Já, við höfum stillt þessa ferð þannig að það var forgangsatriði að sjá leiki á tveimur völlum. Við höfum alltaf viljað fara á Palmerston Park heimavöll Queen of the South.

Við ætlum að sjá heimamenn taka á móti Ayr. Þá ætlum við að kíkja á Cappilelow heima völl Greenock Morton og sjá þá leika við Dundee United. Þetta eru þeir vellir sem við erum hvað spenntastir fyrir að skoða", segir Björn.

Að lokum skýtur Páll því inn í að nauðsynlegt sé að kíkja á sína menn í Hearts sem eiga í vændum botnbaráttuslag við Livingston. Þar munu þeir félagar ekki ekki láta sitt eftir liggja og ætla að slást í för með stuðningsmönnum gestanna á Almondvale vellinum í Livingston. „Það fer vonandi betur hjá Edinborgarliðinu en síðast þegar við Björn sáum þá spila, þá tryggði Celtic sér meistaratitilinn á heimavelli Hearts, Tynecastle.“

Með skoska böku á Séns Park, heimavelli Dundee. Fyrir leik liðsins við Aberdeen 2017