Breska umboðsskrifstofan SEG Football vakti athygli á því að þegar Max Woltman fékk eldskírn sína með Liverpool í gær lék hann við hlið æskuvinar síns, Tyler Morton sem lék allan leikinn gegn AC Milan.

Liverpool tefldi fram breyttu liði á San Siro enda voru lærisveinar Jurgen Klopp öruggir með efsta sæti riðilsins.

Einn þeirra sem fékk tækifæri í byrjunarliði Liverpool var Tyler Morton, nítján ára miðjumaður sem er fæddur og uppalinn i Liverpool.

Undir lok leiksins fékk Woltman fyrstu mínútur sínar með aðalliði Liverpool þegar honum var skipt inn á í uppbótartíma.

Woltman og Morton hafa leikið með barna- og unglingastarfi Liverpool frá sex ára aldri og þykja afar góðir vinir.