Stuðningsmenn enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham United eru allt annað en sáttir með verðlagið á bjórnum eftir fyrsta heimaleik liðsins um helgina á London leikvanginum. Margur stuðningsmaðurinn rak upp stór augu þegar komið var á leikvanginn þar sem rúmur hálfur líter af bjór var verðlagður á 7.60 pund eða því sem jafngildir tæpum 1300 íslenskum krónum.

Það er Twitter-reikningurinn Football Away Days sem vekur athygli á þróuninni í færslu á samfélagsmiðlum þar sem stuðningsmenn eru varaðir við. ,,Ef þú átt leið á leik hjá West Ham United á tímabilinu, varaðu þig. Þú gætir þurft að veðsetja húsið þitt fyrir nokkur glös af bjór."

Af viðbrögðunum að dæma við færslunni má skynja að stuðningsmenn séu allt annað en sáttir við þessa þróun.

,,Ég finn lykt af gjaldþroti í uppsiglingu," skrifaði einn á meðan annar hafði þetta að segja:

,,Eina sem hægt er að gera er að kaupa þetta ekki. Glæpsamlegt."