Undirbúningur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta fyrir fyrsta leik ársins er hafinn.

Ísland mætir Skotlandi í vináttulandsleik á La Manga á mánudaginn. Það er fyrsti leikur íslenska liðsins undir stjórn Jóns Þór Haukssonar sem var ráðinn landsliðsþjálfari síðasta haust.

Íslenska liðið er komið til La Manga og fyrsta æfingin er að baki.

Fyrsti leikur Íslands árið 2018 fór einnig fram á La Manga. Þá töpuðu Íslendingar 2-1 fyrir Norðmönnum. Fanndís Friðriksdóttir skoraði mark Íslands. Hún þarf aðeins þrjá leiki til viðbótar til að komast í hóp þeirra sem hafa leikið 100 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Ísland mætir Skotlandi aftur á Algarve-mótinu 4. mars. Fyrsti leikur íslenska liðsins á mótinu er gegn Kanada 27. febrúar.