Íslenska karlalandsliðið í körfubota kemur saman til æfinga í þessari viku, en liðið er að undirbúa sig fyrir komandi leiki í undankeppni HM 2019 sem fram fara í lok júní og byrjun júlí. Craig Pedersen, Arnar Guðjónsson og Finnur Freyr Stefánsson hafa valið æfingahóp fyrir komandi verkefni. 

Ísland leikur tvo leiki í þessum landsleikjaglugga, en þetta eru síðustu leikir liðsins í fyrri umferðinni og eftir þá ræðst hvar liðið stendur og hvert framhaldið verður. Mótherjarnir að þessu sinni eru Búlgaría og Finnland.

Ísland leikur í F-riliði og staðan í honum er svona: Tékkland (3/1), Ísland (2/2), Finnland (2/2) og Búlgaría (1/3) fyrir lokaleikina sem framundan eru. 

Þrjú efstu liðin fara áfram í aðra umferð en þá blandast E og F riðlar saman í einn sex liða riðil. Í E-riðli eru Frakkland, Rússland, Bosnía og Belgía. Eftir sameiningu og umferð tvö þessara sex liða fara fjögur efstu af þeim á HM í Kína.

Það er því um mjög mikilvæga leiki að ræða fyrir næstu skref íslenska liðsins í að tryggja sér sæti áfram í HM undankeppninni sem og upp á röðun í undankeppni EM 2021.

Báðir leikirnir í sumar fara fram á útivelli, en ljóst er að íslenska liðið þarf sigur gegn Búlgaríu til að gulltryggja sér sæti í annarri umferðinni. Leikurinn gegn Búlgaríu fer fram þann 29. júní og hefst hann klukkan 16:00 að íslenskum tíma. 

Fari leikar svo að Búlgaría vinni leikinn munu þeir alltaf enda fyrir ofan okkur í riðlinum nema að við leggjum Finna í Hartwall-Arena þann 2. júlí í síðari leiknum í þessum glugga.

Æfingahópur Íslands verður þannig skipaður í sumar:

Breki Gylfason - Haukar (Nýliði)

Elvar Már Friðriksson - Barry University, USA (32)

Haukur Helgi Pálsson Briem - Cholet Basket, Frakkland (65)

Hjálmar Stefánsson - Haukar (Nýliði)

Hlynur Bæringsson - Stjarnan (120)

Hörður Axel Vilhjálmsson - Kymis, Grikkland (72)

Jón Arnór Stefánsson - KR (98)

Jón Axel Guðmundsson - Davidson, USA (5)

Kári Jónsson - Haukar (7)

Kristófer Acox - KR (34)

Martin Hermannsson - Châlons-Reims, Frakkland (60)

Ólafur Ólafsson - Grindavík (24)

Pétur Rúnar Birgisson - Tindastóll (7)

Tryggvi Snær Hlinason - Valencia, Spánn (27)

Ægir Þór Steinarsson - Tau Castelló, Spánn (53)