Þetta er náttúrulega bara bilun þetta tímabil sem við erum búin að vera að horfa á. Það er eitthvað svo skrýtið við að vera orðinn spenntur fyrir því að fara í stúdíó að fylgjast með æfingum því að hlutirnir eru orðnir svo bilaðir í þessu. Það er svo mikið að gerast, búin að vera mikil dramatík bæði innan og utan brautar," sagði Kristján Einar í Íþróttavikunni með Benna Bó.

Höfðu áhyggjur af því að hann væri farinn að hrynja í það

Tvær keppnir eru eftir af tímabilinu og aðeins átta stig skilja á milli Max Verstappen og Sir Lewis Hamilton í stigakeppni ökumanna. ,,Við verðum í Sádí-Arabíu um helgina á braut sem var nánast kláruð í gær, það getur einhvern veginn allt farið í skrúfuna en þetta tímabil er búið að vera sturlun frá degi eitt."

Kristján segir það búið að vera rosalega auðvelt að lýsa á tímabilinu sökum þess hversu mikið hefur verið að gerast. ,,Röddin tekur alltaf smá skell á sig á mánudagsmorgnum eftir keppnishelgar, vinnufélagarnir voru farnir að hafa áhyggjur af því að ég væri farinn að hrynja í það um helgar þegar að ég mætti til vinnu með viskírödd."

,,Ég minni fólk oft á að vera þakklátt fyrir það að fá tækifæri til þess að verða vitni af þessu sem við erum að sjá í Formúlu 1 á þessu tímabili. Þetta er slagur sem fer í sögubækurnar og við eigum eftir að tala um eftir fimmtán ár. Nú eru tvær keppnir eftir og ef þú ert ekki byrjaður að horfa á Formúluna þá ertu náttúrulega bara í ruglinu," segir Kristján Einar, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay.

Gat ekki farið í afmæli án þess að tala um F1

Óhætt er að segja að Formúlu 1 æði hafi gert vart um sig meðal Íslendinga og Kristján segist taka eftir því. ,,Já þetta byrjaði allt þegar fyrsta serían af Drive to survive þáttunum um Formúlu 1 kom á Netflix. Á þessum tíma var ég að verða þrítugur og ekki búinn að horfa á hana og var reglulega í þrítugsafmælum hjá vinum mínum. Það var svo steikt að labba inn í afmæli og geta aldrei talað um neitt annað en Formúlu 1 vegna þess að það vildu allir tala um seríuna."

Kristján heldur úti hlaðvarpsþættinum Pitturinn ásamt samstarfsmanni sínum Braga Þórðarsyni og vinsældir þáttarins hafa farið stigvaxandi. ,,Í gær vorum við að fá hlustunartölur og við sjáum 500% aukningu á hlustun milli ára. Við vorum með vinsælasta hlaðvarpið á Spotify um tíma í sumar og það segir manni ýmislegt um vinsældir íþróttarinnar hér á landi."

„Muniði bara að njóta“

Keppt verður á glænýrri braut í Sádí-Arabíu um helgina og með hagstæðum úrslitum getur hollendingurinn Max Verstappen unnið sinn fyrsta heimsmeistaratitil í Formúlu 1. Brautin í Sádí-Arabíu er götubraut með mikinn meðalhraða og margar hraðar beygjur. ,,Það verkefni sem ökumenn eiga fyrir höndum gæti verið það erfiðasta á þeirra ferli. Þetta er algjör bilun sem við erum að horfa fram á. Ég hef aldrei verið jafn spenntur fyrir því að mæta og horfa á fyrstu æfingar."

Það verður mjótt á munum og Hamilton má ekki klikka. ,,Sama hvort þetta verði úrslitakeppni núna um helgina eða þá að við fáum einvígi eftir viku í Abu Dhabi þá er þetta bara eintóm djöfulsins veisla, það er ekki hægt að orða þetta öðruvísi."

Aðspurður að því hvort hann væri með skilaboð til Formúlu 1 áhugafólks á Íslandi hafði Kristján Einar bara eitt að segja: ,,Við erum að horfa á eitt epískasta einvígi sem við höfum nokkurn tímann séð og munið bara að njóta þess. Fólk hefur verið að biðja mig um ráð til þess að halda ró sinni fram að keppni en ég bara á þau ekki til, því miður," sagði Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og einn af umsjónarmönnum hlaðvarpsþáttarins Pitturinn.