Portúgalski miðjumaðurinn André Gomes sem leikur með Everton fótbrotnaði illa í leik liðsins gegn Tottenham Hotspur í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í gær.

Everton sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að Gomes hafi undirgengist aðgerð vegna fótbrotsins sem hafi gengið frábærlega. Búist sé við því að Gomes nái fullum bata og snúi aftur inn á völlinn með liðinu.

Tottenham Hotspur hefur hins vegar áfrýjað rauða spjaldinu sem Son Heung-min fékk fyrir að brjóta á Gomes sem varð til þess að hann fótbrotnaði til enska knattspyrnusambandsins.

Matin Atkinson dómari leiksins veifaði fyrst gulu spjaldi en breytti því svo í rautt spjald. Forráðamenn Tottenham Hotspur vilja líklega meina að brot Son Heung-min hafi ekki verið gróft þó svo að afleiðingarnar hafi verið slæmar.

Verði ekki fallist á kröfu Tottenham Hotspur mun suður-kóreski framherjinn missa af næstu þremur leikjum liðsins í deildinni sem eru á móti Sheffield United, West Ham United og Bournemouth.

Tottenham Hotspur situr í 11. sæti deildarinnar með 13 stig en Everton er í 17. sæti með 11 stig.