Aðrir ökuþórar Formúlunnar hafa þó keyrt brautina í ökuhermum. ,,Þetta er hröð braut sem inniheldur ekki marga bremsupunkta þannig að ég sé fyrir mér að þetta sé braut sem muni verða líkamlega erfið fyrir ökuþóra," sagði Lando Norris, ökuþór McLaren í samtali við motorsport.com.

Pierre Gasly, ökuþór Alpha Tauri, tekur í svipaðan streng. ,,Það er erfitt að bera hana saman við aðrar brautir á tímabilinu. Miðað við að hafa keyrt hana í ökuhermi virðist hún vera mjög spennandi. Hún er hröð og inniheldur mikið af löngum aflíðandi beygjum."

Sergio Perez, ökuþór Red Bull Racing, labbar ásamt liði sínu um brautina í Katar
GettyImages

Sergio Perez, ökuþór Red Bull Racing, keppti síðast á brautinni árið 2009. Hann segist ekki muna mikið eftir henni en vonar að eitt aðal vopn Mercedes liðsins, sem er hraði í beinni línu, verði ekki eins áhrifamikið og í Brasilíu.

,,Við sjáum til hvað við munum geta gert í Katar um helgina. Ég tel að þetta sé öðruvísi braut en margar aðrar á tímabilinu. Ég tel að hraði í beinni línu muni ekki skipta eins miklu máli og í Brasilíu svo vonandi náum við að vera samkeppnishæfari," sagði Sergio Perez, ökuþór Red Bull Racing.

Losail International brautin í Katar
F1.com

Losail International er brautin sem keppt verður á í Katar um helgina. Brautin er staðsett rétt fyrir utan höfuðborgina Doha og var byggð í aðdraganda fyrsta MotoGP kappakstursins í Katar árið 2004, byggingartími brautarinnar var rúmt ár.

Þetta verður í fyrsta skipti sem keppt verður á brautinni í Formúlu 1 en skrifað var undir tíu ára samning fyrir tímabilið.

Brautin er 5.4 kílómetrar að lengd, hún er hröð og miðlungs- og hraðar beygjur eru ráðandi. Beini kafli brautarinnar er rúmur kílómetri að lengd.

Horft út beina kaflann á Losail International brautinni
GettyImages