Emil Pálsson, leikmaður norska félagsins Sogndal, hneig niður í leik í gær. Beita þurfti hjartahnoði og var Emil fluttur á sjúkrahús. Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um líðan Emils á þessari stundu en Geir Inge, upplýsingafulltrúi Sogndal sagði hann hafa verið með meðvitund er hann var fluttur af vellinum.

Í kjölfar atviksins birti Daníel Hafsteinsson, leikmaður efstu deildar liðs KA, færslu á Twitter. Þar sem hann segir tilefni til að uppfæra kröfur um læknisskoðanir í kringum knattspyrnuna á Íslandi. ,,Við erum langt á eftir í mörgu en þetta væri eitthvað sem væri mikilvægt að skoða fyrir allt og alla," var á meðal þess sem Daníel skrifaði á Twitter.

Læknisskoðun aðeins skylda í efstu deild

Samkvæmt leyfisreglugerð Knattspyrnusambands Íslands þurfa aðeins félög í efstu deildum landsins að framfylgja skilyrðum um læknisskoðanir leikmanna.

Samkvæmt reglugerðinni skulu félögin tryggja að allir leikmenn hans sem eru gjaldgengir í meistaraflokki fari árlega í almenna læknisskoðun samkvæmt forskrift KSÍ. Þá þarf staðfestingu frá lækni um að læknisskoðunin hafi farið fram á árinu og félögin þurfa að skila þeirri staðfestingu inn ástam leyfisumsókn fyrir komandi keppnistímabil.

Forskrift KSÍ að læknisskoðun felur meðal annars í sér hjartahlustun, lungnahlustun, skoðun kviðar og skoðun útlima. Það er félögunum síðan í sjálfvald sett hvort ítarlegri læknisskoðun sé framkvæmd.

Félög sem taka þátt í Evrópukeppnum á vegum UEFA þurfa að undirgangast ítarlega læknisskoðun samkvæmt mótareglum þar. Sú læknisskoðun er víðtækari og leikmenn þeirra félaga þurfa því ekki að undirgangast almenna læknisskoðun að auki.

Aðbúnaður á leikjum

Samkvæmt handbók leikja sem er gefin út af KSÍ fyrir ár hvert skal hjartastuðtæki vera til staðar á öllum leikvöngum og aðgengi að því auðvelt og fljóti komi upp sú staða að nota þurfi tækið á og/eða við leiksvæðið.

Einnig skulu vera tvær sjúkrabörur á öllum leikjum. Heimalið þarf að manna þær með tveimur til fjórum starfsmönnum.

Þá er þess getið í staðalformi leikmannasamninga frá KSÍ að samningafélag leikmannsins skuli sjá til þess að á leikjum meistaraflokk sé til taks læknir, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraþjálfari.