Stjórn ReyCup hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttaflutnings af skemmtanahaldi mótsins, en í dag var greint frá bréfi sem þjálfarar 4. flokks Breiðabliks sendu til foreldra í dag.
Í bréfinu sem foreldrar stúlknanna fengu var mælt með því að leikmenn á yngra ári fjórða flokks myndu ekki fara á ball og í sundlaugapartý sem haldið er í tengslum við alþjóðlega knattspyrnumótið ReyCup sem hefst í Reykjavík á morgun.
Í tilkynningunni segir að mótið hafi verið haldið samfleytt í tuttugu ár og að það sé kappsmál mótshaldara að haga umgjörð mótsins þannig að upplifun þátttakenda og aðstandenda verði sem eftirminnilegust.
„Í 20 ára sögu mótsins hefur einungis komið upp eitt tilvik þar sem keppendur hafa tilkynnt áreiti til mótsstjórnar. Um leið og tilkynning barst var brugðist hart við og viðkomandi liði meinuð þátttaka á öðrum viðburðum en knattspyrnuleikjum. Af því urðu ekki frekari eftirmálar,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafnar stjórn ReyCup því að ólíkir menningarheimar skapi vandamál á mótinu.
„Fjölmenningarlegt yfirbragð ReyCup er þvert á móti einn helsti styrkleiki mótsins enda gefst þátttakendum kjörið tækifæri til að kynnast ólíkum menningarheimum, bæði innan og utan vallar.“
Einnig er bent á í tilkynningunni að enginn úr stjórn ReyCup hafi tjáð sig um málið við fjölmiðla og enginn fjölmiðill hafi haft samband vegna málsins. Hins vegar hafði stjórnarmeðlimur ReyCup samband við Fréttablaðið fyrr í dag en vildi þá ekkert láta hafa eftir sér um málið.
Tilkynninguna í heild sinni má lesa hér.