Samkvæmt yfirlýsingu stjórnarinnar er sú ákvörðun að draga kvennaliðið úr keppni þungbær: ,,En stjórn telur af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar frekar nauðsynlegt grípa til þessara ráðstafana með hag klúbbsins að leiðarljósi."

,,Yfirstandandi tímabil hefur einkennst af erfiðleikum við mönnun á liðinu og ófyrirséðum breytingum. Jafnframt hefur ekki tekist að manna að fullu meistaraflokksráð og stjórn deildarinnar sem er forsenda fyrir framgangi starfseminnar," segir í yfirlýsingunni frá stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms.

Stjórnin hyggst hins vegar ekki leggja árar alveg í bát. ,,Markmið körfuknattleiksdeildarinnar verður eftir sem áður að vinna að því að efla meistaraflokka félagsins til framtíðar og byggist það á góðu yngri flokka starfi. Unnið verður að því á næstu mánuðum að efla innra starf deildarinnar, hlúa að og bæta starf yngri flokka enn betur auk þess að styðja við meistaraflokk karla og stefna á þátttöku kvennaliðs á næsta tímabil."

Ekkert lið fellur

Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, segir að sambandið hafi fengið að vita af ákvörðun stjórnar Skallagríms í gær.

,,Það er svosem lítið hægt að gera annað en að taka þeirra leiki út þannig að leikjum fækkar sem því nemur. Öll lið munu því spila tuttugu og fjóra leiki í staðin fyrir tuttugu og átta leiki. Það fellur ekkert lið úr deildinni sem er nú orðin sjö liða deild, svo fer einhvað lið upp í úrvalsdeild eftir tímabilið og þá vonandi verðum við aftur með átta liða deild," sagði Snorri Örn í samtali við Fréttablaðið í dag.

,,Þau gerðu okkur ljóst að þetta væri þeim erfið og þungbær ákvörðun. Þau vonuðust til þess að þetta myndi ganga í vetur en greinilega gerði það ekki eins og þau lögðu upp með," sagði Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ í samtali við fréttablaðið í dag.

Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ
Mynd: KKI.is

Yfirlýsing Skallagríms:

Ágætu stuðningsmenn.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms hefur tekið þá ákvörðun að draga kvennalið Skallagríms úr keppni í Subway deildinni. Yfirstandandi tímabil hefur einkennst af erfiðleikum við mönnun á liðinu og ófyrirséðum breytingum. Jafnframt hefur ekki tekist að manna að fullu meistaraflokksráð og stjórn deildarinnar sem er forsenda fyrir framgangi starfseminnar. Markmið körfuknattleiksdeildarinnar verður eftir sem áður að vinna að því að efla meistaraflokka félagsins til framtíðar og byggist það á góðu yngri flokka starfi. Unnið verður að því á næstu mánuðum að efla innra starf deildarinnar, hlúa að og bæta starf yngri flokka enn betur auk þess að styðja við meistaraflokk karla og stefna á þátttöku kvennaliðs á næsta tímabili. Sú ákvörðun að draga kvennaliðið úr keppni er þungbær, en stjórn telur af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar frekar nauðsynlegt grípa til þessara ráðstafana með hag klúbbsins að leiðarljósi. Stjórn vill þakka leikmönnum kvennaliðsins og öðrum sem hafa haft aðkomu að því starfi í vetur fyrir vel unnin störf.