Chelsea tilkynnti að stór hópur stuðningsmanna Manchester United hefðu sungið niðrandi söngva um samkynhneigða á leik liðanna á mánudaginn..

Að sögn talsmanns Chelsea var fjölmörgum stuðningsmönnum United meinaður aðgangur að vellinum eða hent út á meðan leiknum stóð.

Manchester United vann leikinn 2-0 og náði með því að saxa á forskot Chelsea í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári.

„Í leik gærkvöldsins var stór hópur stuðningsmanna Manchester United að syngja niðrandi söngva um samkynhneigða sem er óásættanlegt. Þessi hegðun er ekki í boði á leikjum Chelsea,“ sagði í tilkynningu frá Chelsea í gærkvöldi.

„Þessir stuðningsmenn sem um ræðir eru komnir í bann frá Stamford Bridge til frambúðar og við komum upplýsingum til Manchester United til þess að félagið geti gripið til aðgerða.“