Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson tók undir orð Gylfa Þórs Sigurðssonar að það væri ekkert til í sögusögnum um ósætti milli Gylfa Þórs og Eiðs Smára Guðjohnsen á blaðamannafundi fyrir leik íslenska karlalandsliðsins á morgun.

Gylfi svaraði fyrir ummæli Guðjóns Þórðarsonar sem sagðist hafa heyrt að ósætti milli Gylfa og Eiðs Smára væri raunveruleg ástæða fjarveru Gylfa. Fjarvera hans vegna væntanlegra barneigna eiginkonu hans, Alexöndru Helgu Ívarsdóttir, væri aðeins til málamyndunar.

„Mér finnst þetta meira skítkast og veit ekki hvað skal segja um það. Auðvitað, þegar liðið hikstar þá er reynt að finna einhverja umræðupunkta til að ræða, en að koma með einhverja svona sögu, út í loftið, sem er ekki sönn, finnst mér galið og kjánalegt,“ sagði landsliðsfyrirliðinn þegar hann var spurður út í þessar fréttir.

„Við höfum margoft sagt að það er í lagi að gagnrýna okkur og við eigum það skilið. Það er mikilvægt að fá gagnrýni en að búa til sögur til að auglýsa eitthvað finnst mér fáránlegt,“ sagði Aron sem vildi lítið tjá sig um málefni Viðars Arnar Kjartanssonar.

Þá hrósaði landsliðsfyrirliðinn KSÍ fyrir skipulag sitt til að sjá til þess að leikmenn fyndu ekki fyrir þreytu.

„Þetta er öðruvísi skipulag en áður, með þrjá leiki og aukin ferðalög í mismunandi tímasvæði. KSÍ hefur reynt að gera þetta eins auðvelt og hægt er og þeir eiga hrós skilið fyrir það. Ég held að það sé ekki andleg þreyta í hópnum en úrslitin hafa ekki verið okkur hagstæð. Ég er viss um að þreytan hverfur þegar komið er inn á völlinn því við þurfum þrjú stig.“