Breiðablik lagði fram erindi, fyrir hönd frjálsíþróttadeildar félagsins, sem dagsett er 27. ágúst, á fundi íþróttaráðs Kópavogs í síðustu viku. Þar var lagður fram listi yfir nauðsynlegan æfinga- og keppnisbúnað sem þarf að endurnýja á Kópavogsvelli eftir að völlurinn var lagður gervigrasi vorið 2019.

Þá er farið fram á það við bæinn að frjálsíþróttadeildinni verði bætt það tekjutap sem hún varð fyrir, er deildin varð að gefa frá sér Meistaramót FRÍ 2020 síðastliðið sumar. Íþróttaráðið frestar ákvörðun um styrk vegna tekjutaps. Starfsmenn frjálsíþróttadeildar upplýstu síðan að gert væri ráð fyrir kostnaði við endurnýjun æfinga- og keppnisbúnaðar frjálsra íþrótta á Kópavogsvelli í áætlun deildarinnar fyrir næsta ár.

„Aðstaðan til æfinga batnaði töluvert við framkvæmdirnar sem farið var í á síðasta ári þar sem sett var upp kastsvæði, langstökksgryfja og tartan sem nægir í æfingar á spretthlaupi, á svæðinu fyrir aftan stúkuna á Kópavogsvellinum. Þessi framkvæmd gerir það að verkum að útiaðstaðan til æfinga er í fínu lagi. Við eigum svo í góðu samstarfi við knattspyrnudeildina um æfingar okkar á hringbrautinni við gervigrasvöllinn.

Ég skal hins vegar alveg viðurkenna að okkur dreymir um eigið æfingasvæði þar sem við gætum æft á þeim tíma sem okkur hentar,“ segir Áslaug Pálsdóttir, formaður frjálsíþróttadeildar Breiðabliks í samtali við Fréttablaðið.

„Deildinni er svolítið þröngur stakkur sniðinn hvað inniaðstöðuna í Fífunni varðar. Þar er til dæmis ekki kastsvæði, þannig að á veturna þurfa kastarar Blika að æfa í Kaplakrika sem er bagalegt. Þá er ekki nógu gott að útisvæðið sem við fengum í framkvæmdunum á síðasta ári fullnægi ekki reglum sem þarf að uppfylla til þess að halda mót í meistaraflokki. Það vantar ekki mikið upp á, þannig að það væri mikill munur ef því yrði kippt í liðinn. Við þurftum að gefa frá okkur að halda Meistaramótið síðasta sumar, sem var vissulega súrt,“ segir Áslaug enn fremur.

„Listinn sem lagður var fyrir íþróttaráð bæjarins inniheldur svo lausan búnað sem er orðinn úr sér genginn. Útbúnaður eins og startblokkir, grindur og annað í þeim dúr er orðið úr sér gengið. Búnaðurinn er alveg brúklegur en það má orða það sem svo að ásigkomulagið á honum sé ekki í samræmi við metnað og gæði þeirra iðkenda sem þurfa á honum að halda. Við eigum í góðu samstarfi við bæði bæjaryfirvöld og aðrar deildir félagsins þannig að þessi mál eru í góðum farvegi,“ segir hún um stöðu mála.