Í skýrslunni sem starfshópur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir skilaði til Mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrir tæpum tveimur árum voru tvær hugmyndir lagðar fram um nýja þjóðarhöll innanhússíþrótta sem kostuðu á bilinu 8-9 milljarða.

Á dögunum tilkynnti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, að borgin væri tilbúin með tvo milljarða fyrir verkefnið.

Undanfarna daga hefur Fréttablaðið fjallað um málefni þjóðarhallarinnar eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, gagnrýndi Reykjavíkurborg fyrir að geta ekki byggt höllina upp á eigin spýtur.

Dagur svaraði ummælum Bjarna um hæl og velti fyrir sér hvort að komin væru upp kergja innan ríkisstjórnarinnar þegar kæmi að þessu málefni.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði stöðuna flókna en að unnið væri markvisst að því að finna lausn á næstu dögum.

Í kostnaðargreiningunni voru tveir möguleikar lagðir til. Annarsvegar hús sem tæki við 8600 áhorfendum og hinsvegar 5000 áhorfendum og var miðað við sambærilega höll í Þrándheimi í Noregi.

Fyrri kosturinn var hægt að stækka í tólf þúsund manns á tónleikum og var áætlaður heildarkostnaður 8,7 milljarðar króna.

Seinni kosturinn var örlítið ódýrari eða heildarkostnaður upp á 7,9 milljarða króna en kostnaðarmunurinn felst í hærra húsnæði og fleiri klósettum og flottari aðstöðu.