Talið berst að fyrirmyndum, hvort leikmenn á þeirra aldri hafi átt slíkar af sama kyni þegar þær byrjuðu að æfa fótbolta.„Bara karlkyns fyrirmyndir,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir. 

Hjá Sif Atladóttur voru fyrirmyndirnar í fjölskyldunni, faðir hennar, Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði og -þjálfari, og bróðir hennar, Egill, sem lék lengst af ferilsins með Víkingi R.

Að sögn Sifjar og Guðbjargar er kvennalandsliðið og leikmenn þess miklu sýnilegri en áður. Og það skiptir máli.

„Það er búið að vera innprentað í mig lengi að þegar þú ert í meistaraflokki ertu fulltrúi félagsins þíns eða landsliðsins. En maður áttar sig ekki alveg á því. Þegar við tökum þessa umræðu heima er oft sagt að við gerum okkur ekki grein fyrir hversu stórar við erum. Svíþjóð er öðruvísi. Við vorum með æfingu fyrir stelpur á aldrinum 12-14 ára og spurðum hvort þær vissu hver fyrirliði sænska kvennalandsliðsins væri. Þrjár stelpur af 55 réttu upp hönd. Ef við myndum spyrja sömu spurningar hér heima myndu 55 af 55 vita það. Við erum miklu sýnilegri en áður og það skiptir miklu máli,“ segir Sif.

Viðtalið við Sif og Guðbjörgu má lesa með því að smella hér.