Hjólreiðamaðurinn Egan Bernal er á gjörgæslu eftir að hafa lent aftan á kyrrstæðri rútu á hjóli sínu. Hinn 25 ára gamli Bernal, sem vann hjólreiðakeppnina Tour de France árið 2019, hefur undirgengist nokkrar aðgerðir á sjúkrahúsi í Kólumbíu þar sem hann dvelur nú.

Það bendir allt til þess að Bernal hafi verið á miklum hraða er hann lenti aftan á rútu í Bogota í heimalandi sínu, Kólumbíu en sjónarvottar segja stóra beyglu hafa myndast aftan á rútunni.

,,Við munum fylgjast með þróun hans næstu 72 klukkustundirnar," sagði í tilkynningu frá sjúkrahúsinu í Bogota en Bernal hlaut áverka á hrygg, hné, auk þess sem lunga hans féll saman.

Bernal er hluti af breska hjólreiðaliðinu Ineos Grenadiers. Liðið sendi frá sér tilkynningu um slysið þar sem að sagt var frá því að Bernal hefði verið með meðvitund þegar að hann var fluttur á sjúkrahúsið. ,,Ástand hans er stöðugt og við bíðum eftir niðurstöðum frekari rannsókna."