Vanda tók til starfa fyrir tíu dögum síðan. Hún kemur inn í knattspyrnuhreyfinguna á erfiðum tímum, KSÍ hefur legið undir ásökunum um að hylma yfir meint kynferðisbrot landsliðsmanna. Hið minnsta sex leikmenn karlalandsliðsins hafa verið sakaðir um ofbeldi samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Málin fóru öll á borð KSÍ á dögunum.

Vanda fór um víðan völl í viðtali sínu á Hringbraut. Hún segir málin sem upp hafa komið á síðustu vikum sorgleg í alla staða.

„Þetta er leiðinlegt og sorglegt. Leikmennirnir eiga fjölskyldur og foreldra, þetta er sorglegt í alla staði," sagði Vanda um þá leikmenn sem legið hafa undir þungum ásökunum,

„Ef við tökum okkur burtu frá einstaka fólki. Það er á hreinu að við þurfum að gera þetta miklu betur, betri forvarnir og fræðslu. Skýrari reglur þegar svona mál koma upp," sagði Vanda.

Unnið er að því innan KSÍ að skerpa á ferlum þegar svona mál koma upp. „Þetta hefði ekki orðið svona mikið ef við höfðum haft það, þetta lykilatriði fyrir íþróttahreyfinguna í heild. Við verðum að gera betur," segir Vanda.

Vanda vill að leikmenn sem sakaðir eru um brot eigi endurkomuleið inn í liðið. „Þegar mál fara sinn farveg. Stundum fara þau til lögreglu og stundum til samskiptaráðgjafa, stundum eru þau á báðum stöðum. Hvað ætlum við að gera svo, er endurkomuleið? Mér finnst það, ég vil að við séum í þannig samfélagi. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum," segir Vanda.

Kolbeinn Sigþórsson var útilokaður úr íslenska landsliðinu af fyrrum stjórn sambandsins. Mál hans hafði verið leyst árið 2018. Vanda segir að stjórnin eigi ekki að skipta sér af vali en þeir sem eru undir lögreglurannsókn eigi þó að vera útilokaðir.

Mál Kolbeins kom upp í september en hefði átt að útiloka leikmenn sem hafði leyst sitt mál fyrir nokkrum árum? „Þetta er góð spurning en erfið. Ég hef alveg sagt, stjórn á ekki að skipta sér af vali. Ég er ekki dómbær á þetta mál því ég var ekki þarna, fyrri stjórn var í erfiðum aðstæðum. Ég vil ekki gagnrýna það sem þau ákváðu. Það þarf að draga lærdóm, ef það hefðu verið ferlar. Þá hefði það verið klippt og skorið," sagði Vanda.