Víkingur Reykjavík heimsækir Malmö í kvöld og mætir heimamönnum í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Það er til mikils að vinna í einvíginu.

Íslands- og bikarmeistararnir unnu á dögunum fjögurra liða forkeppni um eitt laust sæti í undankeppninni sem liðið tekur nú þátt í. Þar vann Víkingur Levadia Tallin frá Eistlandi, 6-1, og Inter Escaldes frá Andorra, 1-0.

Í kvöld er andstæðingurinn hins vegar töluvert stærri biti, Svíþjóðarmeistarar Malmö með Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings, við stjórnvölinn.

Seinni leikur liðanna fer svo fram eftir viku. Liðið sem stendur uppi sem sigurvegari eftir hann fer í aðra umferð undankeppninnar og tryggir sér með því 380 þúsund evrur. Það samsvarar rúmum 53 milljónum íslenskra króna. Víkingur hefur þegar tryggt sér um 39 milljónir króna fyrir að komast í fyrstu umferð.

Það eru ekki bara fjárhæðir að seilast eftir í Malmö í kvöld og í Víkinni eftir viku, það er einnig fjöldinn allur af Evrópuleikjum, nánar til tekið sex leikir.

Það félag sem vinnur einvígi Víkings og Malmö er, sem fyrra segir, komið í aðra umferð undankeppni Meistaradeildarinnar. Detti það lið sem fer áfram út á því stigi fer það í þriðju umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Detti liðið svo út á því stigi fer það í umspilseinvígi um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Með öðrum orðum, liðið sem vinnur einvígi Malmö og Víkings er búið að tryggja sér umspilseinvígi um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, að minnsta kosti.

Það er þó stór hindrun eftir fyrir Víking áður en þangað er komið, tveggja leikja einvígi við Malmö er framundan.

Leikurinn í Malmö hefst klukkan 17 í kvöld að íslenskum tíma.