Jesús, Svanborg. Það er svo kalt hérna. Hvernig er þetta eiginlega hjá þér?“ Svona hljómaði áhyggjufull vinkona mín í Kólumbíu.

Það hefur verið óvenju kalt hjá henni, í hitabeltinu sjálfu. Hún gat ekki ímyndað sér annað en ég sæti með sultardropa í nefi, undir margföldu ullarlagi og kæmist ekki út úr húsi nema hætta á alkul.

Þess í stað hef ég horft á garðinn minn. Ég sé að graslaukurinn er byrjaður að spretta og veit í hjarta mínu að það er enn of snemmt að fara að þrífa beðin, þó það kitli. Það er varla hægt að segja að snjór hafi sést í vetur, þó einhver föl hafi birst tvisvar.

Texas hefur tekist á við óvanalegt kuldakast sem orkukerfið þeirra ræður ekki við. Og vegna þess að Texasbúar eru of sjálfstæðir til að tengjast orkukerfum annarra ríkja, eða lúta reglugerðum alríkisins, hafa þeir ekki efni á því að hita upp húsin sín í þessu óeðlilega frosti.

Frá evrópskri borg fæ ég svo sendar myndir af dóttur minni, léttklæddri í mildu vorveðri í febrúar.

Í stað þess að dúða sig upp fyrir 4 gráður, sem er meðaltalshiti á þessum árstíma, nýtur hún sólar í allt að 19 gráðum og saknar íslenskra ísbúða sem eru opnar allt árið.

Þessar sveiflur segja okkur að jörðinni líður ekki vel og við þurfum að hlúa betur að henni. Það er okkur lífsnauðsynlegt að vera henni náin. Þó snemmbær vorhitinn sé notalegur getur hann líka breyst í fimbulkulda.