Ýmislegt ósagt …

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi Pírati og þingkona til átta ára, segir í viðtali við Mannlíf að mesta óhamingja Pírata liggi í því að skora hátt í skoðanakönnunum. Pólitík sé brútal vinnuumhverfi og þeir sem ekki geti tekið því endist ekki lengi. Hún segir að það hafi vissulega verið áfall að hlusta á fyrrverandi samstarfsfólk úthúða sér á opinberum fundi en hún hafi tekist á við erfiðari hluti í lífinu og hafi ekki áhuga á að munnhöggvast opinberlega. „Auðvitað gæti ég sagt alls konar hluti en ég bara sé ekki tilganginn með því,“ segir Birgitta í þrjú þúsund orða viðtali …

Sjálfstæðisgenið

Eins og fram hefur komið safna óánægðir Sjálfstæðismenn nú undirskriftum gegn þriðja orkupakkanum. Forsprakki söfnunarinnar staðfesti við Fréttablaðið í gær að engin auðkenning væri í skráningu á undirskriftalistann. Það væri þess vegna miðstjórnar flokksins að meta hvort söfnunin væri traust og hvort Mikki Mús og Andrés Önd séu skráðir í flokkinn eða ekki. En sennilega er óþarfi að hafa áhyggjur af þessu því samkvæmt skráningarskírteini er lén heimasíðunnar skráð á netfang á vegum deCODE. Það ætti þannig að vera hægur vandi að athuga hvort þeir sem skrifa undir séu með Sjálfstæðisgen eða ekki.