Mörgum brá illa þegar til­kynnt var í gær að grípa þyrfti tíma­bundið til hertari sam­fé­lags­legra að­gerða á meðan komist er til botns í því hvort út hafi brotist um­fangs­mikið smit af kóróna­veirunni ill­ræmdu. Sam­fé­lagið fór um­svifa­laust á hærra stig var­kárni og að­gæslu. Þeir sem voru orðnir væru­kærir fóru strax að spritta sig betur, ein­staklingar í við­kvæmum hópum og að­stand­endur þeirra fundu sting af sorg og kvíða, smeykir urðu hræddir, og margir sem höfðu verið tor­tryggnir yfir því að fólk væri að ferðast til og frá landinu, fundu til snarprar reiði og von­brigða. Var ekki búið að vara við þessu? Nú má ekki einu sinni fara í úti­legu í appel­sínu­gulu veður­við­vörunina á Suður­landinu. Og hin lítt dul­búna þjóð­há­tíð í Vest­manna­eyjum mun lík­lega þurfa að dul­búast betur – vera meira í hugum og hjörtum heldur en úti á götum eða inni í tjöldum í Dalnum.

Aftur til for­tíðar

Staðan er sú að all­nokkur smit hafa greinst innan­lands og ekki er hægt að vita með vissu hvort þar sé um að ræða toppinn á ís­jaka eða lítinn ís­mola. Til­gangur þess að endur­vekja ár­vekni fólks með hertum að­gerðum er að draga úr líkunum á því að smit haldi á­fram að berast á milli fólks ef um hið fyrr­nefnda er að ræða. Að­gerðirnar eru boðaðar til tveggja vikna, og það mun væntan­lega koma í ljós á næstu dögum hvort um al­var­lega dreifingu sé að ræða, eða mögu­legt sé að snúa lífinu aftur til eðli­legra horfs mjög fljót­lega. Af fyrstu við­brögðum að dæma þá voru tíðindin mörgum um­tals­vert á­fall. Þó er at­burða­rásin í sam­ræmi við það sem búast mátti við. Veiran hefur hvergi dáið al­gjör­lega út. Reynsla sögunnar segir hins vegar að nánast ó­mögu­legt sé að ein­angra sam­fé­lög svo ræki­lega frá um­heiminum að hægt sé að forða þeim al­gjör­lega frá bráð­smitandi pestum á borð við þessa. Það sem hefur hins vegar verið keppi­keflið á Ís­landi er að lág­marka líkurnar á að veiran nái sér á strik og breiðist mikið út, jafn­vel þótt hún laumi sér inn í landið stöku sinnum.


Ár­vekni þá og nú

Það gekk ó­trú­lega vel að lág­marka skaðann af veirunni þegar hún lét fyrst á sér kræla í febrúar og mars. Þótt við hefðum fundið fleiri til­vik en flestar þjóðir í upp­hafi, þá létust mun færri miðað við höfða­tölu en víðast hvar í Evrópu, með­ferð á sjúkra­húsi og gjör­gæslu skilaði betri árangri en víðast hvar annars staðar. Allt tókst þetta án þess að skerða at­hafna­frelsi al­mennings nándar nærri því eins mikið og víðast hvar var gert. Lík­lega réði þarna miklu sú ár­vekni sem yfir­völd hér á landi höfðu í blá­byrjun far­aldursins. Það er fljótt að fenna yfir minninguna um það þegar sótt­varna­yfir­völd þóttu bregðast allt­of harka­lega við með því að skipa heim­komu­far­þegum frá skíða­svæðum Alpanna í 14 daga sótt­kví. Það var áður en öll Evrópa hrökk upp með and­fælum og þurfti að skella miklu harðar í lás heldur en við gerðum nokkurn tímann hér á landi. Að­gerðirnar og var­kárnin sem nú er prédikuð er sama eðlis og fyrstu við­brögðin í febrúar og mars; með því að taka hættuna núna mjög al­var­lega eru minni líkur á því að það þurfi að fara út í enn­þá al­var­legri að­gerðir síðar.

Frjálsari en flestir

Senni­lega er rétt að hafa væntingar um að ver­öldin verði að ein­hverju leyti undir­lögð af á­hyggjum af þessari veiru um langa hríð; eða þar til hún hverfur, slappast niður, með­ferðar­úr­ræði finnast eða eitt­hvað annað ógn­væn­legra nær að ryðja henni af for­síðunum. Og þar sem við munum þurfa að lifa lengi með veirunni er mikil­vægt að sam­fé­lagið geti að­lagast því af yfir­vegun að hættu­stig vegna hennar kunni að blossa upp af og til.
Og það er líka mjög at­hyglis­vert að árangurinn á Ís­landi hefur hingað til náðst án þess að fólk hafi borið and­lits­grímur, enda mæla ýmis rök mjög gegn því að slíkar ráð­stafanir séu eins gagn­legar og kann að virðast að ó­skoðuðu máli. Á­kvarðanir sótt­varna­yfir­valda á Ís­landi um að mæla ekki með and­lits­grímum fyrir al­menning og að loka ekki grunn- og leik­skólum ganga að nokkru leyti í ber­högg við ríkjandi um­ræðu, til dæmis í Banda­ríkjunum. Hefðu Ís­lendingar lokað skólum og hulið vit sín með klútum og grímum, en náð ná­kvæm­lega sama árangri og hingað til, þá mætti slá því föstu að árangurinn væri þakkaður ein­mitt þessum at­riðum, sem við vitum að skiptu ekki máli. Það er mikils­vert að við fáum á­fram lifað við þau lífs­gæði að halda skólum opnum og geta gengið um án and­lits­grímu. Ekkert í reynslu okkar hingað til bendir til þess að þær á­kvarðanir hafi verið rangar.

Sælir endur­fundir

En þótt við séum enn­þá heppnari en flestar þjóðir, þá er bak­slagið núna tölu­vert sjokk. Margir syrgja skerðinguna á því tak­markaða frelsi sem við vorum allt í einu orðin svo þakk­lát fyrir. Eftir inni­veru og ein­veru vetrarins nutum við þess mörg að finna töfrana sem okkar eigið land og nánasta um­hverfi getur boðið upp á. Kannski höfðum við upp­götvað eitt­hvað ó­endan­lega dýr­mætt, sem við höfðum ekki al­menni­lega tekið eftir fyrr, þótt það væri beint fyrir framan nefið á okkur. Og þegar við sjáum allt í einu fram á að missa það frá okkur­jafn­vel þótt það sé bara í nokkra daga eða vikur – þá verður söknuðurinn ákafur. En sú skerðing sem nú er boðuð á frelsi okkar hefur þann til­gang að standa vörð um það til lengri tíma. Þetta er örugg­lega bara tíma­bundið og því ó­hætt að rifja upp það sem segir í texta Árna úr Eyjum og leyfa sér að hlakka til þess tíma þegar ljósin kvikna, brennur bál og bjarma slær á grund og enn­þá fagnar sér­hver sál sælum endur­fund. Gleði­lega þjóð­há­tíð.