Ég hef verið að hugsa undanfarið um þær jákvæðu breytingar sem sjást í viðbrögðum fyrirtækja þegar fólk verður fyrir áföllum. Mikil framför hefur orðið á því hvernig fyrirtæki og stofnanir mæta fólki í slíkum aðstæðum. Það er æ algengara, hvort sem starfsmaður fellur frá eða verður fyrir missi, að vinnustaðurinn fái ráðgjöf fyrir starfsfólk sitt til þess að ræða úrvinnslu og sorgarviðbrögð. Þar koma bæði prestar og sálfræðingar auk annarra sorgarráðgjafa gjarnan við sögu.

Við gleymum því stundum hve mikil vinátta skapast milli vinnufélaga og hvað fólk deilir gleði og raunum oft náið á vinnustað sínum. Fólk vill vera fært um að taka vel á móti samstarfsfélaga sem orðið hefur fyrir þungu höggi af varfærni og umhyggju, á sama tíma og hjólin verða að fá að halda áfram að snúast. Misjafnt er hversu fljótt fólk kemur aftur til starfa. Þar hef ég séð fyrirtæki sýna margvíslega stórmennsku. Ég þekki meira að segja til fyrirtækis sem opnaði atvinnuhúsnæðið og hélt erfidrykkju þegar vinnufélagi hafði fallið frá. Margir syrgjendur velja að koma fljótt til starfa í kjölfar áfalls, þar sem föst rútína styður þau í gegnum þunga daga. Þá gildir að viðkomandi starfsmaður hafi rými til að taka frídaga þegar sorgarbylgjurnar leggjast yfir, eða jafnvel fara á miðjum vinnudegi þegar eitthvað kemur upp sem veldur óvæntum sársauka. Svo eru önnur sem þurfa vikur og jafnvel mánuði í leyfi. Sum biðja um tilfærslu innan vinnustaðarins sem gefi þeim kost á að starfa í ögn minna áreiti en fyrr. Fullyrða má að á þessu sviði hafi lífsleikni okkar sem þjóðfélags aukist og lýðheilsan með. Þar er vöxtur fyrirtækjanna í landinu ekki síst áberandi í mínum huga.