Reykjavík er leiðandi afl sem stærsta sveitarfélag landsins. Reykjavíkurborg er stór vinnustaður sem þjónustar alla sem hér búa og fyrirtækin sem hér starfa. Í stórum rekstri getur ýmislegt komið upp á, það má alltaf breyta og bæta. Þess vegna getur samtal og rýni verið til góðs. Það er því gagnlegt að líta yfir stóru verkefnin fram undan.

Húsnæðismálin

Meirihlutinn vissi frá upphafi kjörtímabils að húsnæðismál og framkvæmdir yrðu stóru verkefnin. Eftir hrun þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir og margt sat á hakanum. Við sem samfélag tókum ákvörðun um að láta fólk og menntun ganga fyrir til að bjarga atvinnustigi og fyrirbyggja ýmsa félagslega erfiðleika sem geta verið fylgikvillar kreppuástands.

Það fór aldrei á milli mála að aftur yrði að setja framkvæmdir og uppbyggingu í forgang. Nú þegar rekstur borgarinnar er í jafnvægi gerum við það, húsnæðismál og framkvæmdir eru efst á verkefnalistanum. Á þessu ári setjum við 20 milljarða í framkvæmdir auk þess sem við stóreflum framkvæmdaráð og umsýslu til að tryggja að allt fari vel fram.

Þétting byggðar

Meirihlutinn hefur lagt áherslu á hagkvæmar og nútímalegar lausnir í húsnæðisuppbyggingu. Við viljum lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, meðal annars með Borgarlínu. Lykilsvæði í húsnæðisuppbyggingunni eru fjölbreyttir þéttingarreitir, meðal annars meðfram þróunarásum aðalskipulags ásamt nýrri, blandaðri byggð í Gufunesi, Bryggjuhverfi, Úlfarsárdal, Elliðaárvogi, Höfðum, Skeifu og Skerjafirði.

Borgarbúar og borgin okkar allra

Það sem við tryggjum í þessu meirihlutasamstarfi er að þjónusta við borgarbúa sé í forgrunni. Við ætlum að einfalda kerfið og stytta boðleiðir svo að borgarbúar geti með einfaldari hætti nálgast þjónustu borgarinnar. Við höfum lagt áherslu á snjallar lausnir og rafræna þjónustu. Við lækkuðum fasteignaskatta á árinu 2018 og skattur á atvinnuhúsnæði verður lækkaður. Umfram allt viljum við að þjónusta borgarinnar taki mið af þörfum hins fjölbreytta hóps notenda.

Sem fyrr segir þá getur ýmislegt komið upp á stórum vinnustað. Þá þarf að ganga hreint til verks og leysa málin en þar skorumst við ekki undan. Við erum stöðugt að bæta störf okkar með það markmið að borgarbúar fái betri þjónustu. Verkefnin eru mörg og við höldum ótrauð áfram að vinna borgarbúum í hag.