Nær samfellt í fimmtán mánuði höfum við verið undir höftum og frelsi daglegs lífs verið settar skorður vegna heimsfaraldursins. Þar hafa skipst á skin og skúrir, vonir og vonbrigði. Varla er að finna nokkurn mann sem hefði trúað því að til þyrfti svo lítið kvikindi til að setja mætti allt á skjön. Veiran reyndist ekkert lamb að leika sér við, þó síðar muni koma í ljós hvort tilefni var til allra þeirra viðbragða sem gripið var til. Um það nennir enginn að hugsa nú þegar ský dregur hratt frá sólu.

Þessum takmörkunum á frelsi höfum við tekið misjafnlega. Sumir þakka fyrir þær en aðrir formæla þeim, eins og gengur.

Í þessum heimshluta eigum við því hins vegar ekki að venjast að settar séu skorður við frelsi. Það er á hinn bóginn daglegt brauð fólks víða um heim.

Í vikunni tók sig á loft flug Ryanair númer 4978 frá Aþenu í Grikklandi og var ferðinni heitið til Vilníus í Litáen. Um borð voru 126 farþegar, þar á meðal 26 ára gamall Hvítrússi, Roman Protasevitsj. Leiðin lá um lofthelgi Hvíta-Rússlands. Þegar skammt var eftir út úr lofthelginni bárust fyrirmæli til flugstjóra vélarinnar um að henni skyldi beint til lendingar á flugvellinum í Minsk í Hvíta-Rússlandi þar sem borist hefði tilkynning um að sprengja væri um borð.

Herþotur fylgdu vélinni til lendingar. Á jörðu niðri var Protasevitsj færður úr vélinni án frekari skýringa. Hann er nú í haldi í Hvíta-Rússlandi.

Protasevich hefur frá 2019 verið í sjálfskipaðri útlegð frá Hvíta-Rússlandi. Hann hefur verið gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandi sínu og haldið uppi umfjöllun um margt það sem miður hefur farið þar í landi.

Hvíta-Rússland er sérstætt ríki. Það er um fimmtungur af stærð Íslands og þar búa tæpar tíu milljónir manna. Frá árinu 1994 hefur Alexander Lúkasjenko verið þar við völd sem forseti landsins. Með stjórnarskrárbreytingum hefur hann tryggt sér setu á forsetastóli eins lengi og hann nennir og lystir. Hann hefur verið nefndur síðasti einræðisherra Evrópu og er býsna vel að þeirri nafnbót kominn. Þrátt fyrir gervilýðræðið sem dregið er fram á tyllidögum þegar Lúkasjenko þykist endurnýja umboð sitt, verður hann varla annað en hreinræktaður einræðisherra.

Í föðurlandi sínu er Protasevitsj nú haldið föngnum fyrir það eitt að halda uppi gagnrýnni umfjöllun um stöðuna í þessu furðuríki.

Viðbrögð annarra Evrópuríkja virðast fumlaus þótt þau hafi látið ögn á sér standa. Fljótlega hlýtur Protasevitsj að verða leystur úr haldi frjáls ferða sinna. Jafnvel þótt vinurinn í varpa, Pútín, styðji forseta landsins með ráðum og dáð. Af forsetastóli rymur svo Lúkasjenko eitthvað um ólögmæta íhlutun annarra ríkja og hreytir innihaldslausum fúkyrðum til beggja handa. Hvíta-Rússland og forseti þess eru fyrirmynd um hvernig ríki eiga ekki að vera.

Hvað sem okkur finnst um takmarkanir á frelsi sem við uppi á Íslandi höfum þurft að þola treystum við því að það sé tímabundið ástand og við getum brátt kvatt vopnin.

Aðrir þurfa sennilega að bíða lengur.