Landsmenn eru nú í óðaönn að búa sig undir vonbrigði næstu viku, en þau hverfast eins og fyrri árin um það hversu erfitt verður að tjalda um verslunarmannahelgina og taka seglið saman í lokin, ef það er þá yfirleitt mögulegt.

Allt saman minnir þetta eyjar­skeggj­ana á að rigningin á Íslandi er ekki einasta mæld í millimetrum heldur líka í gráð­um, það er að segja hvað vatnsveðrið hallar mikið í átt að fangi ferðamannsins, en þar ræður fjölbreytnin ein, allt frá því að úrfellið komi skáhallt að ofan á bringu manns, slepjan dembist lárétt í kviðinn, ellegar að hraglandinn feykist upp undir mann allan.

Einnota

Það er af þessum sökum sem Íslendingar – og líklega einir þjóða – kaupa sér að jafnaði einnota tjöld til að dvelja í um umrædda helgi.

Það hættir enginn rándýrum og margnota tjöldum inn í ofsaveðrið sem geisar alla jafna um helgina sem verslunarmenn eru einir við í vinnu, heldur er bara farið inn á næstu bensínstöð til að hafa þaðan með sér illa saumað seglið sem dugar kannski eina nótt eða tvær áður en flúið er inn í næsta íþróttahús þar sem fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð með þjónustu sérfræðinga í áfallastreituröskun.