Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra olli sárum vonbrigðum í liðinni viku. Fái hugmyndir hennar brautargengi munu þær draga úr virði Íslandsbanka, sem ríkið á að mestu og mun selja hlut af eign sinni um þessar mundir, og vinna gegn aðgerðum Seðlabankans til að kveða niður verðbólgu. Það myndi ekki þykja gott dagsverk hjá bankamálaráðherra.

Lilja sagði að bankarnir ættu í ljósi ofurhagnaðar að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfi fram á hærri vaxtabyrði vegna stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Að öðrum kosti yrði komið á bankaskatti til að dreifa byrðunum.

Til að bregðast við Covid-19 kreppunni fyrir um tveimur árum lækkaði Seðlabankinn stýrivexti hratt til að hleypa súrefni í atvinnulífið. Að undanförnu hefur verðbólga vaxið hröðum skrefum einkum vegna húsnæðiseklu og mælist nú 5,7 prósent. Til að bregðast við henni hefur Seðlabankinn á skömmum tíma hækkað stýrivexti úr 0,75 prósent í 2,75 prósent.

Mikilvægt er að peningastefnu Seðlabankans sé miðlað í gegnum bankakerfið. Stjórnmálamenn mega ekki bregða fæti fyrir seðlabankafólk sem er að stíga skref til að ná böndum á verðbólguna.

Aukinheldur er kaupmáttur heimilanna mikill. Opinber gögn styðja ekki þá tilgátu að almennt þurfi að hlaupa undir bagga með heimilum. Stýrivextir voru litlu hærri eða um þrjú prósent við upphaf heimsfaraldursins og eru mun lægri en vanalega.

Hagnaður viðskiptabankanna er mikill í krónum talið – sem almenningur horfir mest á – en í samhengi við umsvif þeirra var meðal arðsemi bankanna tæplega 13 prósent í fyrra. Miðað við verðbólguna á árinu var ávöxtunin í raun um átta prósent. Hagnaðinn má einkum rekja til aukinna þóknanatekna í ljósi mikils hagvaxtar og virði lánasafna, sem færð voru niður til að gæta varúðar vegna heimsfaraldursins, voru færð upp í ljósi batnandi aðstæðna í hagkerfinu. Í virðisbreytingunum felst því ekki raunverulegur hagnaður. Að þessu virtu getur ráðherra ekki leyft sér að tala um ofurhagnað.

Að sama skapi ætti viðskiptaráðherra að vita vel að heimilin og fyrirtæki borga bankaskattinn. Nær væri að leggja hann af og draga úr almennri skattheimtu ef leita á leiða til að lækka vaxtakostnað landsmanna í staðinn fyrir að koma á miðstýrðu kerfi.

Ákall hefur verið um að erlendir fjárfestar komi í meira mæli að fjármögnun bankakerfisins. Hafa ber í huga að meiri áhætta felst fyrir fjárfesta í að leggja fé í banka eftir að bankamálaráðherra hefur sagt að aukin skattheimta komi til greina. Aukin skattheimta dregur úr arðsemi banka og þar með virði þeirra. Bankamálaráðherra á ekki að vera Þrándur í Götu á sölu á hlut í Íslandsbanka erlendis.