Val á Kamölu Harris, sem nú hefur verið valin úr hópi álitlegra kandídata sem varaforsetaefni Joes Biden, er fallið til að styrkja enn frekar sigurlíkur Demókrata í forsetakosningum sem þar munu fara fram 3. nóvember eða eftir ríflega tvo mánuði.

Eins og greint hefur verið frá í Fréttablaðinu og víðar hefur blað verið brotið með því að velja hana. Hún er fyrsta konan sem ekki er af ættstofni hvítra sem valin er til verksins en hún er af jamaískum og indverskum uppruna. Þegar haft er í huga hvernig bandaríska þjóðin er samsett af fólki af ólíkum uppruna með rætur nær hvaðanæva úr heiminum, sætir nokkurri furðu að fyrst nú sé þetta uppi á teningnum. Það þótti líka stórtíðindum sæta þegar Obama var kosinn forseti forðum, fyrstur svartra Bandaríkjamanna. Bandaríkjamenn eru sérkennileg þjóð.

Það má ráða af viðbrögðum Donalds Trump þegar fregnir bárust til hans af vali Demókrata að hann óttast Kamölu. „Hún er illkvittnasti, ferlegasti og dónalegasti þingmaðurinn í öldungadeildinni,“ sagði hann. Það eru ekki nema kunnáttumenn sem mæla svo. Ætli mætti ekki gefa honum svipaða einkunn? Það er þó ólíku saman að jafna, Donald og Kamölu.

Plan Bandaríkjaforseta til endurkjörs virðist ekki ætla að ganga upp. Hann ætlaði að sýna kjósendum hvílíkan efnahagsbata hann hefði fært þjóðinni, með lágmarksatvinnuleysi, hámarkshagvexti og að allt stæði í blóma. Það er öðru nær. Til að allrar sanngirni sé gætt ber hann ekki alveg einn ábyrgð á að ekki hefur betur gengið. Bandaríkin hafa orðið illa úti í baráttunni við heimsfaraldurinn og hann hefur svo sannarlega sett sitt mark á efnahagslíf vestra og þar hafa menn ekki bitið úr nálinni með efnahagslegar afleiðingar hans. En hann ber líka sína ábyrgð á hvernig Bandaríkin brugðust við þegar við blasti hvaða ógn ríkjum heims stafaði af faraldrinum. Hann skellti við því skollaeyrum og taldi að veiran myndi fljótt víkja.

Þegar svo allt er í óefni komið grípur forsetinn til örþrifaráða, svo sem að meina löndum sínum að koma heim, leiki á því minnsti grunur að þeir kunni að vera smitaðir. Lokar á ferðir til Kúbu til að ganga í augun á auðugum innflytjendum af kúbverskum uppruna í Flórída, en atkvæði þaðan skipta miklu í kosningunum. Og reynir svo að sá fræjum efasemda í hug kjósenda um kjörgengi Kamölu.

Lítið atriði í vikunni eins og sturtuendaleysan er svo vandræðaleg að engu máli nær. Allt vegna þess að hann vill að makki hans sé fullkominn. Þetta væri víða í sveitum hér á landi talinn hégómi.

Kamala Harris er vel að valinu komin. Hún er margreynd á sviði bandarískrar stjórnsýslu og er líkleg til að reynast löndum sínum vel. Joe Biden gæti sannarlega verið betur lukkaður sem frambjóðandi Demókrata, en við því gera menn fátt úr því sem komið er. Hinn 78 ára gamli Biden er ekki hafinn yfir lögmál lífs og dauða. Bandaríkjamenn ættu vel að geta treyst Kamölu Harris hvernig sem það fer.