Þau eru misjöfn innlegg stjórnmálafólksins í kosningaumræðuna. Bjarni Benediktsson virtist fara bæði álfu- og aldavillt á stefnumótunarfundi Sjálfstæðisflokksins er hann boðaði kjósendum „land tækifæranna“. Sigmundur Davíð daðraði einnig við forna frægð, sína eigin, og klæddi í nýjan búning gömul loforð um ókeypis peninga handa öllum, konum og köllum. Mitt í skýjaborg kosningabaráttunnar vakti hins vegar einn frambjóðandi athygli á veruleikanum.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, kunni blaðamanninum vafalaust litlar þakkir sem spurði hana í vikunni út í leyfi hennar frá störfum af heilsufarsástæðum nýverið. Engu að síður svaraði hún af hreinskilni. „Ég var undir talsverðu álagi,“ sagði Lilja um veikindin. „Ég ákvað að það væri skynsamlegt að taka mér hvíld.“ Í einni svipan svipti Lilja hulunni af einu stærsta samfélagsmeini samtímans, málefni sem þó er ekki minnst á einu orði í þeim loforðaflaumi sem stefnuyfirlýsingar stjórnmálaflokkanna eru.

Áhrif kóvid á vinnustaði

Frá árinu 1939 hefur verslanakeðjan Marks & Spencer verið ein vinsælasta verslun breskra karlmanna í leit að nýjum jakkafötum. Skrifstofufólk, sem margt vann heiman frá sér í kórónaveirufaraldrinum, hefur hins vegar tekið ástfóstri við joggingbuxur. Forsvarsmenn M&S telja breytingu á klæðnaði karlmannsins varanlega. Verslunin tilkynnti nýverið að jakkaföt fengjust nú aðeins í 110 af 254 verslunum M&S en áhersla yrði lögð á stakar buxur og kósí peysur.

Þægilegri karlmannsklæðnaður er ekki eina breytingin sem kóvid olli og notið hefur vinsælda.

Ný skýrsla frá Englandsbanka, Seðlabanka Bretlands, sýnir að einn hópur naut góðs umfram aðra af aukinni fjarvinnu í heimsfaraldrinum: Konur með börn. Brottfall kvenna af vinnumarkaði vegna umönnunarskyldna snarminnkaði. „Líklegt verður að teljast að ástæðan sé sveigjanleiki fjarvinnu,“ segir í skýrslunni.

En þótt karlmönnum leyfist nú að mæta á skrifstofuna með stroff í strengnum virðist sú vinnustaðabreyting sem er konum til hægðarauka ekki ætla að hljóta sömu náð fyrir augum stjórnenda. Fjármálaráðherra Bretlands berst nú fyrir því að fólk fari aftur inn á skrifstofurnar upp á gamla mátann frá níu til fimm. Fyrirtækið Google hótar því að skerða laun þeirra sem vinna heima.

En hvers vegna er sveigjanleiki konum sérstaklega mikilvægur?

Ofan á hefðbundna vinnu sjá konur að mestu um ólaunaða vinnu, heimilisstörf og umönnun barna. Í íslenskri rannsókn sem gerð var fyrir faraldurinn sögðust tæp 39% kvenna en aðeins 4% karla sjá að mestu leyti um heimilisstörfin. Samkvæmt rannsókn UN Women vörðu konur fyrir faraldurinn sex fleiri klukkustundum við barnaumönnun á viku en karlmenn. Munurinn er nú tæpar átta klukkustundir á viku. Samkvæmt árlegri vísitölu kvenna á vinnumarkaði sem PricewaterhouseCoopers stendur að hefur Covid-19 valdið „kvennakreppu“. Vegna aukinnar ólaunaðrar vinnu inni á heimilum hefur atvinnuþátttaka kvenna minnkað og er því spáð að í lok árs 2021 verði hún sú sama og árið 2017.

Aðspurð játaði Lilja Alfreðsdóttir að segja mætti að hún hefði gengið á vegg. Lilja er ekki ein. Þær eru úti um allt, konurnar sem ganga nú á vegg. En hvar eru kosningaloforðin handa aðframkomnum konum? Hvar eru hugmyndirnar að kvenvænu samfélagi? Hvar er sveigjanleikinn sem myndi létta undir með þeim?

Í síðustu viku samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar að skerða enn frekar sveigjanleika í lífi kvenna. Til stendur að opnunartími leikskóla borgarinnar verði styttur varanlega og munu skólarnir loka 16.30 í stað 17.00 eins og áður var.

Sveigjanleiki er sjálfsagður þegar kemur að vömb karla en ekki lífi kvenna.