Sérkennilegur er hann söfnuðurinn sem gargar hæst gegn neyðaraðgerðum í loftslagsmálum og illt að ekki megi réttilega kalla hann heimskan. Eftir háskalega vel heppnaða tangarsókn að tungumálinu, frá hægri og vinstri, er slíkt víst bannað á upplýsingaröld merkingarleysunnar.

Áður var „heimskingi“ bara gott og gagnsætt orð yfir fólk sem í grautarhausum sínum sullar saman skoðunum og tilfinningum í bland við vísindalegar og sögulegar staðreyndir, staurblint á muninn á fréttum og falsfréttum.

Sælir eru þó einfaldir því þeir munu umræðuna erfa og þá að öllum líkindum jörðinni eyða með Nóaflóði ranghugmynda, sigri hrósandi á rökfræðilegri blindgötunni.

Orð, jafnvel brengluð, eru enn til alls fyrst og upplausn tungumálsins er, með fullri virðingu fyrir Gretu Thunberg, jafnvel hættulegri jarðlífinu en hnattræna hlýnunin þótt þar hrökkvi ein ranghugmynd skammt.

En því miður eru yfirgnæfandi líkur á því að þeir sem hafna því sem er að gerast yfir hausamótunum á þeim trúi einnig að Satan búi í Brussel, að helstu og elstu banda- og nágrannaþjóðir okkar sitji á svikráðum við Íslendinga, að skepnuskapur Ísraela í Palestínu sé bara hið besta mál og að Donald Trump sé svar 21. aldarinnar við Sókratesi. Að konur megi ráða yfir líkama sínum til þess að selja hann en ekki þegar þær vilja binda enda á meðgöngu og að fólk á flótta streymi hingað til þess að éta aldraða og öryrkja út á gaddinn.

Samkvæmt orðabókinni brestur þau sem svona hugsa í versta falli vit, eru vitgrönn eða heimskuleg en í besta falli heyra þau heimilinu til, eru heimafengin.

Vituð þér enn eða hvað?